Naumt forskot í Mosfellsbæ

Ólafur Björn Loftsson slær í dag.
Ólafur Björn Loftsson slær í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Atvinnukylfingurinn Ólafur Björn Loftsson er með eins höggs forystu eftir fyrsta hring sinn á ÍSAM-mótinu sem fram fer á Hlíðavelli hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar í dag. Ólafur spilaði frábært golf og lék á samtals 68 höggum og var á fjórum höggum undir pari vallarins. Ólafur spilaði stöðugt golf, fékk fimm fugla, tólf pör og einn skolla á hringnum.

Hann er samtals á fjórum höggum undir pari en Viktor Ingi Einarsson kemur þar á eftir á þremur höggum undir pari. Viktor Ingi fékk einn örn á hringum, þrjá fugla og tvo skolla. Fjórir kylfingar eru jafnar í 3.-6. sæti á samtals tveimur höggum undir pari en þeir eru Axel Bóasson, Dagbjartur Sigbrandsson, Andri Þór Björnsson og Hlynur Bergsson. 

Íslandsmeistarinn Guðmundur Ágúst Kristjánsson náði sér ekki á strik á hringnum í dag og lék á samtals þremur höggum yfir pari og er í 19.-20. sæti. Þá lék Haraldur Franklín á tveimur höggum yfir pari og er í 15.-18. sæti. Annar hringur mótsins verður leikinn síðar í dag og sá þriðji á morgun en sterkustu kylfingar landsins eru allir skráðir til leiks á mótinu.

mbl.is