Ólafía saxaði á forskot Íslandsmeistarans

Guðrún Brá Björgvinsdóttir er enn í forystu.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir er enn í forystu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir minnkaði forskot Íslandsmeistarans Guðrúnar Brár Björgvinsdóttur á öðrum hring á ÍSAM-mót­inu í golfi sem fram fer á Hlíðavelli hjá Golf­klúbbi Mos­fells­bæj­ar úr fjórum höggum niður í tvö högg. 

Guðrún lék fyrsta hringinn í dag á 68 höggum og setti í leiðinni nýtt vallarmet. Henni fataðist örlítið flugið á öðrum hring sem hún lék á 74 höggum, tveimur höggum yfir pari, og er hún á samtals tveimur höggum undir pari. 

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er í öðru sæti.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er í öðru sæti. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ólafía Þórunn lék báða hringi dagsins á 72 höggum eða á pari og er því tveimur höggum á eftir Íslandsmeisturunum. Þar á eftir kemur Ragnhildur Kristinsdóttir á þremur höggum yfir pari. Hefur hún leikið hringina tvo á 74 og 73 höggum. 

Atvinnukylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir er í fjórða sæti á samanlagt átta höggum yfir pari og Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir kemur þar á eftir á fimmtán höggum yfir pari. 

Mótið er afar sterkt og eru Guðrún Brá, Ólafía Þórunn og Valdís Þóra að leika á sama móti hérlendis í fyrsta skipti síðan árið 2016. 

Þriðji og síðasti hringurinn verður leikinn á morgun, en heildastöðuna má sjá með því að smella hér. 

mbl.is