Úrslitin réðust á lokaholunni

Dag­bjart­ur Sig­ur­brands­son missteig sig á lokaholunni og Andri Þór Björnson …
Dag­bjart­ur Sig­ur­brands­son missteig sig á lokaholunni og Andri Þór Björnson fagnaði sigri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Atvinnukylfingurinn Andri Þór Björnsson vann nauman sigur á ÍSAM-mótinu í golfi sem fram fór á Hlíðavelli hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar um helgina. Fyrir lokahringinn sem leikinn var í dag var Andri Þór á samtals tveimur höggum undir pari í 4.-6. sæti, fjórum höggum á eftir Dagbjarti Sigurbrandssyni, sem var í efsta sæti á sex höggum undir pari.

Andri spilaði stöðugt golf í dag, fékk þrjá fugla og einn skolla og lék á samtals tveimur höggum undir pari vallarsins. Dagbjartur, sem er 17 ára gamall, náði ekki að fylgja eftir frábærri spilamennsku í gær en hann fékk þrjá fugla, fjóra skolla og einn tvöfaldan skolla.

Dagbjartur fékk skolla á síðustu holunni sem varð til þess að Andri fagnaði sigri á fjórum höggum undir pari en Dagbjartur lék á þremur höggum undir pari. Kristófer Karl Karlsson og Björn Óskar Guðjónsson höfnuðu í 3.-4. sæti á tveimur höggum undir pari.

Andri Þór Björnsson
Andri Þór Björnsson mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is