Maraþon í Mosfellsbæ

Guðrún Brá Björgvinsdóttir fagnaði sigri í Mosfellsbæ eftir sexfaldan bráðabana.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir fagnaði sigri í Mosfellsbæ eftir sexfaldan bráðabana. mbl.is/Kristinn Magnússon

Atvinnukylfingarnir Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Andri Þór Björnsson fögnuðu sigri á ÍSAM-mótinu á heimslistamótaröðinni í golfi á Hlíðavelli um helgina. Allir sterkustu atvinnukylfingar Íslands voru mættir til leiks, sem og efnilegir áhugamannakylfingar. Spennan var mikil í karlaflokki og enn meiri í kvennaflokki þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en á sjöttu holu í bráðabana. Að lokum hafði Guðrún betur gegn Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur eftir sannkallaða maraþonviðureign í bráðabananum. Guðrún var í forystu nánast allt mótið, en Ólafíu tókst að saxa á Íslandsmeistarann og jafna þegar fjórar holur voru eftir. Tókst hvorugri þeirra að tryggja sér sigurinn eftir 18 holur og því réðust úrslitin í bráðabana, en þær luku báðar leik á samtals tveimur höggum undir pari.

Rosalega kalt í lokin

„Þetta var langt en það er gott að enda þetta á sigri,“ sagði Guðrún Brá kát við Morgunblaðið þegar sigurinn var í höfn. Kylfingar léku tvo hringi á laugardag og einn í gær og viðurkennir Guðrún að það hafi tekið á, sérstaklega eftir langan bráðabana.

„Þetta var ótrúlega langur dagur á laugardag og svo varð þessi seinni dagur mun lengri en maður ætlaði sér en svoleiðis er þetta stundum. Ég viðurkenni að ég er orðin þreytt og það var rosalega kalt í lokin, en maður verður búinn að ná sér á morgun.“

Guðrún var með fjögurra högga forystu eftir fyrsta hringinn, en fataðist örlítið flugið á öðrum og þriðja hring og Ólafía nýtti sér það. „Ég gerði sjálf mjög fá mistök á þessum þremur hringjum og það skilaði góðu skori. Ólafía fékk svo nokkra fugla í röð og ég fann hún var komin í mikinn ham. Ég náði ekki alveg að gefa í eins og ég vildi, en sem betur fer endaði þetta vel,“ sagði Guðrún.

Guðrún leikur á Evrópumótaröðinni, en óvíst er hvenær næsta mót fer fram og hvenær Guðrún getur leikið næst. „Ég bíð eftir kalli að utan. Maður er ánægður að geta spilað hérna heima og ég er þakklát fyrir það,“ sagði Íslandsmeistarinn.

Umfjöllun um mótið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »