Deila toppsætinu á Akranesi

Haraldur Franklín Magnús spilar vel.
Haraldur Franklín Magnús spilar vel. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tveir kylfingar deila toppsætinu eftir fyrsta hring á B59 Hotel-mót­inu í golfi sem hófst á Leyn­is­velli klukk­an átta í morg­un en það er fyrsta mótið á mótaröð Golf­sam­bands Íslands á ár­inu 2020. 

Atvinnukylfingurinn Haraldur Franklín Magnús og áhugakylfingurinn Hákon Örn Magnússon léku báðir á 67 höggum og eru því fimm höggum undir pari.

Haraldur fór vel af stað og fékk m.a. örn á fjórðu holu. Þá fékk hann fjóra fugla á síðustu sex holunum. Fékk hann alls einn örn, sex fugla og þrjá skolla á holunum 18. Leikur Hákonar var stöðugri því hann fékk sex fugla og aðeins einn skolla. 

Hlynur Bergsson er í þriðja sæti á fjórum höggum undir pari og Íslandsmeistarinn Guðmundur Ágúst Kristjánsson og hinn efnilegi Dagbjartur Sigurbrandsson eru jafnir í fjórða sæti á þremur höggum undir pari. 

mbl.is