Markahæsti nýliðinn í Frakklandi

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir er að gera góða hluti í Frakklandi.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir er að gera góða hluti í Frakklandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Handboltakonan Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir hefur leikið vel með Bourg-de-Péage í frönsku A-deildinni í handbolta á leiktíðinni, en Selfyssingurinn er á sínu fyrsta ári í atvinnumennsku. 

Hrafnhildur hefur skorað 84 mörk í 19 leikjum og er tíundi markahæsti leikmaður deildarinnar. Þá er hún markahæsti nýliðinn. Hefur Hrafnhildur skorað mörkin 84 úr 150 skotum og er með 56 prósent skotnýtingu. 

Landsliðskonan skorar 4,4 mörk að meðaltali í leik og þar af 2,5 mörk af vítalínunni að meðaltali. Hefur hún skorað úr 47 af 61 vítakasti og er með 77 prósent vítanýtingu. Bourg-de-Péage er í níunda sæti deildarinnar af 12 liðum með 33 stig eftir 19 leiki. 

Hin slóvenska Ana Gros er markahæst allra með 125 mörk en hún leikur með Brest. 

mbl.is