Lykilmaður framlengir í Safamýri

Ægir Hrafn Jónsson er lykilmaður í liði Framara.
Ægir Hrafn Jónsson er lykilmaður í liði Framara. mbl.is/Hari

Ægir Hrafn Jónsson hefur framlengt samning sinn við handknattleiksdeild Fram en þetta kemur fram á heimasíðu félagsins. Samningurinn er til næstu tveggja ára og gildir því til ársins 2022. Ægir er lykilmaður í liði Framara og á meðal bestu varnarmanna úrvalsdeildarinnar.

Við í Fram erum gríðarlega ánægð með að fá að njóta krafta hans áfram enda er hann mikill liðsmaður og frábær félagi,“ segir á heimasíðu félagsins en Ægir hefur skorað þrjú mörk í nítján leikjum á tímabilinu.

Framarar eru sem stendur í núnda sæti úrvalsdeildarinnar, Olísdeildarinnar, með 16 stig, einu stigi minna en Stjarnan sem er í áttunda sætinu. Fram á því ennþá góða möguleika á sæti í úrslitakeppninni þegar tvær umferðir eru eftir af deildarkeppninni sem hefur verið frestað um óákveðinn tíma vegna kórónuveirunnar.

mbl.is