Þrír frá ÍR í Mosfellsbæinn?

Sveinn Andri Sveinsson gæti verið á förum í Mosfellsbæinn.
Sveinn Andri Sveinsson gæti verið á förum í Mosfellsbæinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bergvin Þór Gíslason, Sveinn Andri Sveinsson og Þrándur Gíslason Roth, leikmenn handknattleiksliðs ÍR, munu ganga til liðs við Aftureldingu þegar samningar þeirra renna út í sumar en það er Vísir.is sem greinir frá þessu. ÍR-ingar eiga í fjárhagsvandræðum og því munu uppaldir leikmenn fá stærra hlutverk í Breiðholtinu á næstu leiktíð.

Bergvin er 28 ára gömul vinstri skytta en hann kom til félagsins frá Akureyri fyrir nokkrum árum. Sveinn Andri er uppalinn hjá ÍR í Breiðholtinu en hann er 21 árs gamall leikstjórnandi sem hefur skorað 60 mörk í vetur. Þrándur er 31 árs gamall línumaður sem kom til ÍR frá Aftureldingu á sínum tíma.

Gunnar Magnússon mun taka við liði Aftureldingar í sumar af Einari Andra Einarssyni. Gunnar er í dag þjálfari Hauka en ekki er ljóst hvað mun taka við hjá Einari Andra. Afturelding er sem stendur í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar, Olísdeildarinnar, en ÍR er í því sjötta þegar tveir leikir eru eftir af deildarkeppninni.

mbl.is