Landsliðsmaður lést í umferðarslysi

Fredrik Larsson í leik með Alingsås.
Fredrik Larsson í leik með Alingsås. Ljósmynd/Alingsås

Fredrik Larsson, fyrrverandi landsliðsmaður Svía í handknattleik, lést í umferðarslysi á þriðjudaginn, aðeins 36 ára að aldri.

Larsson var á ferðinni á reiðhjóli þegar vörubíll ók á hann með þeim afleiðingum að hann lést. Hann skilur eftir sig sambýliskonu og tvær dætur.

Larsson lék 36 landsleiki fyrir Svía og lék með þeim bæði á EM 2010 og HM 2011. Hann spilaði með sænsku liðunum Skövde, Ystad IF, Hammarby, Sävehof og Alingsås snemma á ferlinum. Hann samdi við Kiel 2008 og hefði orðið lærisveinn Alfreðs Gíslasonar en hætti við og fór í staðinn til Aragón á Spáni. Eftir það lék hann með Sävehof, Gummersbach í Þýskalandi og lauk ferlinum með Alingsås á árunum 2014 til 2016 þegar hann lagði skóna á hilluna vegna meiðsla.

„Þetta er hræðilegt, harmleikur fyrir 36 ára gamlan mann. Ég minnist hans sem glaðværs og jákvæðs stráks sem elskaði sína íþrótt. Hann var traustur, faglegur og sannkallaður liðsmaður,“ sagði Ola Lindgren við Aftonbladet en hann var landsliðsþjálfari Svía á tíma Larssons þar.

mbl.is