Veiran hafði áhrif á ákvörðun Guðjóns Vals

Guðjón Valur Sigurðsson er markahæsti landsliðsmaður handboltasögunnar með 1.875 mörk …
Guðjón Valur Sigurðsson er markahæsti landsliðsmaður handboltasögunnar með 1.875 mörk í 365 landsleikjum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrrverandi landsliðsfyrirliði Íslands í handknattleik, Guðjón Valur Sigurðsson, kveðst vera að hoppa út í djúpu laugina með því að taka við B-deildarfélagi Gummersbach.

Guðjón, sem verður 41 árs gamall í ágúst, lagði skóna nokkuð óvænt á hilluna í lok apríl og var ráðinn þjálfari þýska liðsins fjórum dögum síðar, 3. maí, en hann skrifaði undir tveggja ára samning í Þýskalandi.

Guðjón þekkir vel til hjá félaginu eftir að hafa leikið með liðinu á árunum 2005 til 2008, en liðið, sem er það næstsigursælasta í Þýskalandi á eftir Kiel, féll úr efstu deild í fyrsta sinn vorið 2019.

„Ég er fyrst og fremst spenntur fyrir þessu verkefni og ég hlakka mikið til,“ sagði Guðjón í samtali við Morgunblaðið. „Maður er að fara aðeins út fyrir þægindarammann og reyna að fóta sig á nýjum slóðum. Ég er í raun bara að hoppa út í djúpu laugina og vonandi kann maður að synda. Ef ekki, þá þarf maður að læra það ansi fljótt.

Það eru gerðar væntingar til mín þarna en það hefur líka fylgt handboltaferli mínum að ég hef spilað með liðum þar sem kröfurnar hafa verið ansi miklar. Ef maður hefði ekki viljað hafa hlutina þannig hefði maður að öllum líkindum bara endað í einhverjum þægilegheitum í bumbubolta. Ég vil standa mig sem allra best en ég geri mér líka grein fyrir því að ég er með stórt skotmark á bakinu.

Ég er að koma inn í þjálfaraheiminn með litla sem enga reynslu, frá liðum þar sem væntingarnar hafa verið miklar, og það er ekkert öruggt að ég muni ná árangri sem þjálfari. Ég er gríðarlega stoltur og ánægður með það traust sem mér hefur verið sýnt hjá Gummersbach og ef ég get ekki staðið undir því þarf ég einfaldlega að finna mér eitthvað annað að gera.“

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Þarf að læra sund­tök­in á mettíma

mbl.is