Arnór tekur við dönsku landsliði

Arnór Atlason á langan feril að baki sem landsliðsmaður Íslands …
Arnór Atlason á langan feril að baki sem landsliðsmaður Íslands og atvinnumaður. AFP

Arnór Atlason, fyrrverandi landsliðsmaður í handknattleik, hefur verið ráðinn þjálfari danska unglingalandsliðsins í piltaflokki, U18 ára, en danska handknattleikssambandið skýrir frá þessu á vef sínum.

Arnór var að ljúka sínu öðru tímabili sem aðstoðarþjálfari meistaraliðsins Aalborg og heldur því starfi áfram. Samningurinn gildir frá 1. júlí 2020 til 31. ágúst 2022.

„Ég er fyrst og fremst glaður og stoltur yfir því að danska handknattleikssambandið skyldi horfa til mín þegar það leitaði eftir nýjum unglingalandsliðsþjálfara. Ég hlakka til að vinna með þessum ungu leikmönnum, þar sem markmiðið verður að þeir geti látið drauma sína um að leika með A-landsliðinu rætast. Ég vona að reynsla mín sem leikmaður og þjálfari geti hjálpað þeim í rétta átt,“ segir Arnór á vef sambandsins.

„Með Arnóri höfum við fengið hæfan, vinsælan og afar virtan leikmann og persónuleika, sem með reynslu sinni sem leikmaður og þjálfari getur lagt sitt af mörkum til að við höldum áfram að þróa hæfileikaríka leikmenn, sem auk þess að hafa ástríðu og tækni fái meiri leikskilning. Það var okkar fyrsti kostur að ná í Arnór ásamt því að halda fyrra starfsliði. Ég vil líka þakka Jan Larsen og Aalborg Håndbold fyrir að gefa Arnóri tækifæri til að sinna þessu verkefni auk starfa hans fyrir félagið,“ segir Morten Henriksen, íþróttastjóri danska handknattleikssambandsins, á vef þess.

mbl.is