ÍBV staðfestir komu Sigtryggs

Sigtryggur Daði Rúnarsson skrifaði undir þriggja ára samning við ÍBV …
Sigtryggur Daði Rúnarsson skrifaði undir þriggja ára samning við ÍBV í dag. Ljósmynd/Lübeck-Schwartau

Handknattleikskappinn Sigtryggur Daði Rúnarsson er genginn til liðs við ÍBV en þetta staðfesti félagið á heimasíðu sinni í morgun. Sigtryggur kemur til félagsins frá þýska B-deildarfélaginu Lübeck-Schwartau þar sem hann hefur spilað frá árinu 2018. Hann skrifar undir þriggja ára samning við ÍBV.

Þar áður lék hann með Balingen en hann hefur allan sinn meistaraflokksferil leikið í Þýskalandi. Sigtryggur er uppalinn hjá Þór á Akureyri en hann hefur einnig leikið með Aue í Þýskalandi. Þá á hann að baki fjölda landsleikja fyrir yngri landslið Íslands.

Við bjóðum Sigtrygg hjartanlega velkominn til Eyja og hlökkum mikið til samstarfsins!“ segir á heimasíðu ÍBV en Sigtryggur verður 24 ára gamall í júní. Faðir hans er Rúnar Sigtryggsson, fyrrverandi landsliðmaður Íslands og margreyndur þjálfari. Rúnar þjálfaði síðast lið Stjörnunnar í efstu deild.

mbl.is