Fjórir skrifa undir í Garðabæ

Goði Ingvar Sveinsson er mættur í Garðabæinn.
Goði Ingvar Sveinsson er mættur í Garðabæinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjórir leikmenn hafa skrifað undir samninga við karlalið Stjörnunnar í handknattleik en þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem félagið sendi frá sér í dag. Leikmennirnir sem um ræðir eru þeir Arnar Máni Rúnarsson, Brynjar Hólm Grétarsson, Goði Ingvar Sveinsson og Sigurður Dan Óskarsson.

Arnar Máni er tvítugur og kemur til félagsins frá Fjölni þar sem hann hefur verið í stóru hlutverki undanfarin ár. Hann skoraði þrjú mörk að meðaltali í leik með Fjölnismönnum í efstu deild í vetur. Goði Ingvar er 19 ára og kemur einnig frá Fjölni. Hann skoraði einnig þrjú mörk að meðaltali í vetur. Báðir hafa þeir verið fastamenn í yngri landsliðum Íslands.

Brynjar Hólm er uppalinn hjá Þór á Akureyri. Hann var lykilmaður í liði Þórsara í 1. deildinni síðasta sumar þar sem hann skoraði sex mörk að meðaltali í leik. Sigurður Dan er tvítugur markmaður sem kemur frá FH sem á að baki leiki fyrir yngri landslið Íslands.

„Það eru mikil gleðitíðindi að fá nokkra af efnilegustu leikmönnum Íslands í Garðabæinn undir leiðsögn Patreks Jóhannessonar. Uppskrift sem getur varla klikkað,“ segir í yfirlýsingu sem Garðbæingar sendu frá sér í dag.

mbl.is