Geir hættur hjá Nordhorn

Geir Sveinsson er hættur hjá Nordhorn.
Geir Sveinsson er hættur hjá Nordhorn. Ljósmynd/Nordhorn

Fyrrverandi landsliðsþjálfarinn og landsliðsfyrirliðinn Geir Sveinsson hefur látið af störfum hjá þýska handknattleiksliðinu Nordhorn. Geir tók við liðinu fyrir veturinn og gerði þá tveggja ára samning. 

Heimasíða félagsins greinir frá því að Nordhorn og Geir hafi komist að samkomulagi um að slíta samstarfinu. Tékkinn Daniel Kubes tekur við af Geir og gerir tveggja ára samning. 

„Við höfum ákveðið að liðið þurfi að fara nýjar leiðir eftir erfitt tímabil. Því höfum við komist að þeirri niðurstöðu að hætta samstarfi okkar við Geir Sveinsson. Við þökkum Geir fyrir hans vinnu í þágu félagsins og óskum honum alls hins besta,“ segir í yfirlýsingu félagsins í dag. 

Lítið gekk hjá Nordhorn undir stjórn Geirs og vann liðið aðeins tvo leiki af 27 í þýsku 1. deildinni á tímabilinu og var í langneðsta sæti deildarinnar. Kórónuveiran kom hins vegar í veg fyrir að liðið félli og leikur það því áfram í efstu deild. 

Geir hefur stýrt Akureyri, Val og Gróttu hér á landi og þá hefur hann einnig verið þjálfari Bregenz í Austurríki og Magdeburg í Þýskalandi. 

mbl.is