Mikilvægt að hoppa öðru hvoru út í djúpu laugina

Arnór Atlason var ráðinn U18 ára landsliðs Dana í gær.
Arnór Atlason var ráðinn U18 ára landsliðs Dana í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnór Atlason, fyrrverandi landsliðsmaður Íslands í handknattleik og núverandi aðstoðarþjálfari meistaraliðs Aalborg í Danmörku, var í gær ráðinn þjálfari danska U18 ára unglingalandsliðsins.

Arnór, sem er 35 ára gamall, kom inn í þjálfarateymi Álaborgarliðsins árið 2018, en hann skrifaði nýverið undir tveggja ára framlengingu á samningi sínum við félagið og verður hann því hjá félaginu til sumarsins 2022 í það minnsta.

Arnór hefur verið búsettur í Danmörku samfleytt frá árinu 2016 en ásamt því að leika með Aalborg á árunum 2016 til 2018 lék hann einnig með FCK og AG Köbenhavn í Danmörku á atvinnumannaferli sínum.

„Það er mikill heiður fyrir mig persónulega að svona stórt samband skuli leitast eftir kröftum mínum og ég er mjög stoltur og glaður yfir því,“ sagði Arnór í samtali við Morgunblaðið. Í mínum huga fer þetta mjög vel saman við starf mitt hjá Aalborg. Það er alveg nóg að gera hjá félaginu í bæði deild og Meistaradeild en það mun mæða mest á mér hjá U18 ára landsliðinu í landsleikjahléum og þess vegna tel ég þessi störf passa fullkomlega saman.

Ég hef fengið tilboð frá öðrum liðum hérna í Danmörku í gegnum tíðina en þegar allt kemur til alls líður mér mjög vel hjá Aalborg. Tímasetningarnar hafa heldur ekki alltaf hentað en þegar starfstilboðið kom frá danska handknattleikssambandinu fannst mér það henta fullkomlega og þess vegna ákvað ég að stökkva á það.“

Frábært tækifæri

Arnór var einungis 33 ára gamall þegar hann lagði skóna á hilluna árið 2018. Hann gerði það meðal annars þar sem hann vildi einbeita sér meira að þjálfun, en Danir eru þekktir fyrir að framleiða frábæra handboltaleikmenn og er Arnór afar spenntur fyrir því að vinna með mesta efniviði Danmerkur.

„Það er alveg ljóst að ég hefði ekki fengið þetta starf ef það færi slæmt orð af mér hérna í Danmörku. Það er því jákvætt að það hefur verið tekið eftir því starfi sem maður hefur unnið undanfarin tvö ár hjá Aalborg. Þetta er líka frábært tækifæri fyrir mig persónulega til þess að láta að mér kveða enda fyrsta starf mitt sem aðalþjálfari ef svo má segja.“

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »