Ágúst aðstoðar Arnar hjá kvennalandsliðinu

Ágúst Jóhannsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari íslenska kvennalandsliðsins.
Ágúst Jóhannsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari íslenska kvennalandsliðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ágúst Jóhannsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik en þetta kemur fram á heimasíðu HSÍ. Ágúst tekur við starfinu af Halldóri Jóhanni Sigfússyni sem óskaði eftir því að láta af störfum en Halldór var ráðinn þjálfari hjá Selfossi og framkvæmdastjóri unglingaakademíu félagsins fyrr í vetur.

Ágúst hefur undanfarin þrjú ár stýrt kvennaliði Vals og undir hans stjórn vann liðið þrefalt á síðustu leiktíð, deild, bikar og Íslandsmót. Hann hefur einnig stýrt færeyska kvennalandsliðinu undanfarin tvö ár en lét af störfum í Færeyjum í síðustu viku. Ágúst mun einnig sjá um þjálfun U16 ára landsliðs kvenna.

Ágúst þekkir vel til hjá kvennalandsliðinu en hann stýrði liðinu á árunum 2000 til 2001 og svo aftur frá 2011 til 2016. Hann fór með íslenska liðið á tvö stórmót, HM 2011 og EM 2012, en alls hefur kvennalandsliðið þrívegis farið á stórmót, fyrst árið 2010 á EM.

mbl.is