Hættur í annað sinn á ferlinum

Kim Ekdahl Du Rietz hefur ákveðið að leggja skóna á …
Kim Ekdahl Du Rietz hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna. Ljósmynd/Rhein-Neckar Löwen

Sænski handknattleiksmaðurinn Kim Ekdahl du Rietz hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna í annað sinn á ferlinum en það eru franskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Ekdahl er þrítugur en hann hefur ákveðið að ljúka háskólanámi í Hong Kong sem hann hóf fyrir þremur árum.

Svíinn lagði skóna fyrst á hilluna árið 2017 eftir að hafa orðið Þýskalandsmeistari með Rhein-Neckar Löwen, þá 27 ára gamall. Undanfarin tvö tímabil hefur hann leikið með París SG í Frakklandi þar sem hann hefur tvívegis orðið Frakklandsmeistari.

Leikmaðurinn verður 31 árs gamall í júlí en hann hefur leikið með Lugi, Nantes, Rhein-Neckar Löwen og PSG á ferlinum. Hann varð tvívegis Þýskalandsmeistari með Löwen og þá vann hann til silfurverðlauna með Svíþjóð á Ólympíuleikunum 2012 í London.

mbl.is