Reiður þjálfari Hamars lætur KKÍ heyra það

Mate Dalmay, þjálfari Hamars.
Mate Dalmay, þjálfari Hamars. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Fúll er rosalega vægt orð,“ var það fyrsta sem Máté Dalmay, þjálfari karlaliðs Hamars í körfubolta, sagði við mbl.is er leitað var eftir viðbrögðum hans við að tímabilið í körfuboltanum hér heima væri búið og að Hamar ætti ekki lengur möguleika á að fara upp um deild. 

Stjórn KKÍ ákvað í dag að Höttur færi upp í efstu deild á kostnað Fjölnis sem fellur. Hamar var tveimur stigum frá Hetti í deildinni og hefði farið upp í toppsætið með sigri á Hetti þar sem liðin áttu eftir að mætast innbyrðis. 

Eins og einhver nákominn hafi fallið frá

„Þetta var eins og einhver nákominn manni hafi fallið frá og það á ósanngjarnan hátt. Ég hélt að þetta væri það eina sem gat ekki gerst. Ég hélt að annað hvort myndi ekkert lið fara upp né niður eða tvo lið fara upp og niður. Það er margt í þessu sem ég skil ekki og það eru engin rök fyrir. Þetta var einhver geðþóttaákvörðun sem er tekin á fundi í hádeginu á miðvikudegi á meðan að allar stærstu deildir heims ætla að taka sér 30 daga og ræða málin fram og til baka,“ sagði hann pirraður.

Maté er mjög ósáttur með hversu skamman tíma KKÍ tók sér við að komast að niðurstöðu. „Það er ótrúlegt að KKÍ með þessa litlu deild hérna heima á Íslandi þurfi að flýta sér að taka ákvörðun á nokkrum dögum. Liðin voru að spila síðasta föstudag og nú er búið að taka ákvörðun um útfærslu alls 4-5 dögum seinna. Þetta er galið.“

Mótanefnd KKÍ að klúðra 

Þá bendir hann á það litla sem skilur Hamar og Hött að og að mótanefnd KKÍ eigi sök í máli. 

„Eina ástæðan fyrir því að Höttur er á undan okkur núna er leikjaröðun KKÍ. Það að leikjaniðurröðin og frestaðir leikir ráði úrslitum eftir að lið eyði milljónum í eitt tímabil er sturlað. Bæði lið áttu einn leik eftir áður en við áttum að mætast í úrslitaleik 20. mars. Það eru leikir sem voru frestaðir leikir frá því í janúar og febrúar.

Höttur átti erfiðan leik gegn Vestra á útivelli, sem er m.a leikur sem við töpum, og það er ástæðan fyrir að þeir eru á undan okkur í deildinni á þessum tímapunkti. Ef þessi leikur hefði verið spilaður stuttu eftir að honum var frestað, eins og lög KKÍ segja til um, þá væri þessi lið kannski jöfn í dag. KKÍ fylgdi hins vegar ekki sínum eigin reglum með að spila frestaða leiki á fyrsta mögulega leikdag. Þess í stað var leiknum frestað um einhverja tvo mánuði, bæði okkar leik og þeirra. Þar er mótanefnd KKÍ að klúðra og það kemur helvíti illa niður á okkur,“ sagði Maté.

Frá leik Hamars og Fjölnis á síðustu leiktíð.
Frá leik Hamars og Fjölnis á síðustu leiktíð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki er aðeins um fjárhagslegt tjón að ræða, heldur hefur einnig verið gríðarlega mikil vinna lögð í körfuboltann í Hveragerði.  

„Ég er búinn að vera í símanum í allan dag og ég er búinn að segja við marga að mig langar ekki að starfa í þessari hreyfingu lengur. Maður lifir fyrir körfubolta. Maður njósnar um andstæðinga, keyrir í gegnum blindbyl á heiðinni annan hvern dag og tekur tíma frá fjölskyldu. Það á ekki bara við um mig heldur alla í liðinu. Leikmenn liðsins eru sömuleiðis gjörsamlega ónýtir sem og stjórnarmenn. Það fer mikil vinna í þetta hjá öllum. Það þarf að finna styrki, safna dósum og fara í vörutalningar í Bónus. Svo er tekin þvílíkt ósanngjörn ákvörðun. Liðin eru í 50/50 séns. Ég hefði bitið í það súra ef hætt hefði verið við tímabilið og allir væru á sama stað á næsta ári en þetta skil ég ekki.“

Mesta einræði sem maður veit um

Stjórn KKÍ sat fundinn í dag og er Maté ósáttur með að félögin sjálf hafi ekki fengið meira að segja um niðurstöðina. 

„Það er eitt annað sem ég skil ekki er af hverju formenn félaganna fengu ekki að koma sínu á framfæri á fundinum. Í staðinn er þetta tíu eða ellefu manna stjórn sem tekur einhliða ákvörðun. Það kemur bara yfirlýsing og henni skal fylgja. Þetta er eins og mesta einræði sem maður veit um. Þetta fólk á að vinna fyrir okkur en ekki að taka ákvarðanir sem bitna á liðunum, því það var það einfaldasta í stöðunni núna.

Ég skil ekki til hvers maður er að standa í þessu í allan vetur og svo er tekin svona ákvörðun af fólki sem er tengt í alls konar klúbba. Stjórn KKÍ er með tengingar hjá hinum og þessum félögum. Það hefði verið helvíti sterkt að hafa einhvern Hvergerðing í stjórninni sem hefði þá haft hærra á fundinum í dag,“ sagði hann og tók dæmi um ensku úrvalsdeildina. 

Hamarsmenn hafa verið nálægt því að fara upp um deild …
Hamarsmenn hafa verið nálægt því að fara upp um deild síðustu ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Enska úrvalsdeildin tekur sér 30 daga og þar eru fundarhöld með eigendum og stjórnendum liða alla daga til að finna einhverja lausn. Þar eru ekki örfáir menn sem ákveða sín á milli t.d að Aston Villa eigi að falla bara og áfram gakk. Þetta gengur ekki svona fyrir sig. Þetta er þvílíkt tjón fyrir okkur.“

Ákvörðun tekin af fólki sem veit ekkert um íþróttir

Hann segir það ekki útilokað að málinu sé ekki lokið og ýjaði að það kæmi til greina hjá félaginu að leita réttar síns. 

„Að komast ekki í efstu deild er þvílíkt tjón fyrir okkur fjárhagslega. Við hefðum fengið styrktaraðila, komist í sjónvarpið og fengið fleira fólk á völlinn á meðan við spilum við bestu lið landsins. Maður ætti kannski að skoða það að leita réttar síns þegar það er tekin svona ákvörðun sem hefur svona mikil áhrif á eitt félag.

Það er eitt lið sem þessi ákvörðun hallar á og það erum við. Þetta er ákvörðun tekin af fólki sem veit ekkert um íþróttir yfir einhverjum kaffibolla á elliheimili. Ef þú hefðir hóað saman einhverja sem hafa áhuga á íþróttum myndu þeir gera sér grein fyrir að þetta sé keppni. Keppni á að ráða úrslitum um hver fer upp og hver fer niður.“

mbl.is