LeBron vill klára ferilinn í Los Angeles

LeBron James
LeBron James AFP

Körfuboltamaðurinn LeBron James segist vilja ljúka ferlinum hjá Los Angeles Lakers en hann gekk til liðs við NBA-deildarliðið árið 2018. LeBron er 35 ára gamall og einn sigursælasti leikmaður deildarinnar í dag.

Hann spilaði með Cleveland Cavaliers á árunum 2003-10 og svo aftur 2014 til 2018 eftir dvöl hjá Miami Heat. Hann varð NBA-meistari árin 2012, 2013 og 2016 og hefur verið valinn besti leikmaður deildarinnar fjórum sinnum.

„Hvaða NBA lið myndi ég aldrei spila fyrir?“ sagði LeBron hugsi í myndskeiði á Instagram þar sem hann svaraði spurningum aðdáenda sinna. „Ég er enn þá að spila, ég verð að halda öllum valkostum opnum. En akkúrat núna get ég sagt ykkur að ég vil ekki fara neitt. Ég vil vera hér og vera í Lakers alla mína ævi.“

Þegar LeBron sneri aftur til Cleveland árið 2014 sagði hann í viðtali við Sports Illustrated: „Ég trúði því alltaf að ég myndi snúa aftur til Cleveland og klára ferilinn minn þar.“ Það átti þó eftir að breytast nokkrum árum seinna.

Los Angeles var í efsta sæti Vesturdeildar NBA með 49 sigra og 14 töp þegar stöðva þurfti keppni í deildinni vegna kórónuveirunnar.

mbl.is