Upplifið þið veiruna eins og ég?

Rudy Gobert er að jafna sig eftir að hafa smitast …
Rudy Gobert er að jafna sig eftir að hafa smitast af kórónuveirunni. AFP

Rudy Gobert, leikmaður bandaríska körfuboltaliðsins Utah Jazz, sem fyrstur leikmanna NBA-deildarinnar greindist með kórónuveiruna, hefur lýst einkennum hennar og spyr á samfélagsmiðlum hvort aðrir upplifi hana á sama hátt.

„Aðeins til að upplýsa ykkur um stöðuna þá er tapað lyktarskyn og bragðskyn pottþétt eitt af einkennum sjúkdómsins, ég hef ekki fundið neina lykt undanfarna fjóra daga. Einhver sem upplifir þetta á sama hátt?" skrifaði Gobert á Twitter.

Hann var greindur með veiruna 11. mars og þar með ákvað stjórn deildarinnar að fresta keppni alfarið, um það bil sem leikkur Utah Jazz og Oklahoma City Thunder var að hefjast í Oklahomaborg.

Hinn 27 ára gamli Gobert hafði örstuttu áður fíflast með veiruna á fréttamannafundi, lék sér að því að snerta alla hljóðnema og upptökutæki, en baðst í kjölfarið innilega afsökunar á hátterni sínu. 

Daginn eftir var samherji hans Donovan Mitchell greindur með veiruna og nú eru tíu smit staðfest meðal NBA-leikmanna. Aðeins fimm þeirra hafa verið nafngreindir en hinir þrír eru Kevin Durant hjá Brooklyn Nets, Christian Wood hjá Detroit Pistons og Marcus Smart hjá Boston Celtics.

Gobert tilkynnti í síðustu viku að hann hefði gefið 500 þúsund dollara til styrktar starfsfólki keppnishallanna í Utah og Oklahomaborg, ásamt því að styrkja baráttuna gegn veirunni í heimalandi sínu, Frakklandi.

mbl.is