Bauðst að taka við liðum í efstu deild

Danielle Rodriguez var ráðin aðstoðarþjálfari Stjörnunnar í dag.
Danielle Rodriguez var ráðin aðstoðarþjálfari Stjörnunnar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það voru nokkrir aðrir möguleikar í stöðunni,“ sagði Danielle Rodriguez, nýráðin aðstoðarþjálfari karlaliðs Stjörnunnar í körfuknattleik, í samtali við mbl.is á blaðamannafundi félagsins í Sjálandi í Garðabæ í dag.

Danielle skrifaði undir eins árs samning við félagið en hún mun aðstoða Arnar Guðjónsson, þjálfara liðsins, ásamt Inga Þór Steinþórssyni.

Danielle hefur að öllum líkindum spilað sinn síðasta leik á ferlinum, þrátt fyrir að vera einungis 26 ára gömul, en hún vill einbeita sér að þjálfun og voru nokkur lið sem settu sig í samband við hana þegar ljóst var að hún ætlaði sér að þjálfa á næstu leiktíð.

„Mér var boðið að taka við kvennaliðum í úrvalsdeildinni en mér fannst það vera of stórt stökk fyrir mig á þessum tiltekna tímapunkti. Fólk mun kannski benda á það að ég sé orðin aðstoðarþjálfari í karladeildinni en ég kem inn í það starf með mikinn metnað til þess að læra. Ég á von á því að Arnar muni setja mér fyrir ákveðin verkefni til þess að byrja með og koma mér þannig betur inn í starfið.“

Danielle Rodriguez skoraði 20 stig að meðaltali í leik með …
Danielle Rodriguez skoraði 20 stig að meðaltali í leik með KR í vetur. mbl.is/Árni Sæberg

Góður tími til þess að læra

Danielle þekkir íslensku deildirnar vel eftir að hafa leikið með Stjörnunni frá árinu 2016 til ársins 2019 en síðasta sumar gekk hún til liðs við KR þar sem hún skoraði 20 stig að meðaltali í leik í vetur.

„Heilt yfir fannst mér ég ekki tilbúin í að taka við sem aðalþjálfari hjá liði i efstu deild. Markmiðið í ár er fyrst og fremst að læra og taka inn alla þá þekkingu sem ég get, bæði frá Arnari og svo Margréti Sturlaugsdóttur, þjálfara kvennaliðsins, sem er frábær körfuboltaheili líka. Núna hefur Ingi líka bæst við og það heillaði mig því meira en að renna blint í sjóinn annars staðar,“ bætti Danielle við í samtali við mbl.is.

mbl.is