Hefði viljað vinna sjöunda titilinn

Michael Jordan.
Michael Jordan. Reuters

Michael Jordan kveðst sjá mikið eftir því að hafa ekki leikið eitt ár til viðbótar með Chicago Bulls og reynt að vinna sjöunda meistaratitil sinn í NBA-körfuboltanum.

Eftir að hafa unnið titilinn í sjötta sinn með Chicago árið 1998 leystist hið öfluga lið Chicago upp. Scottie Pippen, Steve Kerr og Dennis Rodman fóru allir frá félaginu og þeir Jordan og Phil Jackson þjálfari hættu.

Í heimildarþætti ESPN, „Síðasti dansinn“, sagði Jordan að það hefði vel verið hægt að fá alla til að halda áfram eitt tímabil enn.

„Ef öllum sem unnu titilinn '98 hefði verið boðinn nýr eins árs samningur og sagt að reyna við sjöunda titilinn, heldurðu að þeir hefðu skrifað undir? Já, þeir hefðu gert það. Hefði ég gert árs samning? Já, ég hefði gert það. Ég hafði skrifað undir árs samninga næstu tímabil á undan,“ sagði Jordan í lokaþættinum.

Hann sagði að eigendur félagsins hefðu vel getað talið alla á að vera áfram. „Hefði Phil gert það? Já. Það hefði þurft talsvert til að sannfæra Pip. En ef Phil hefði ætlað að vera áfram, ef Dennis hefði ætlað  að vera áfram, ef MJ hefði ætlað að vera áfram, til að vinna sjöunda titilinn? Pip hefði ekki viljað missa af því,“ sagði Jordan, sem var 35 ára gamall þetta síðasta tímabil sitt með Chicago.

„Þetta er svekkjandi, því mér fannst við  geta unnið í sjöunda sinn. Ég trúi því algjörlega. Kannski hefði það ekki tekist, en bara það að fá ekki tækifærið til að reyna er nokkuð sem ég get aldrei orðið sáttur við. Ég get bara ekki sætt mig við það,“ sagði Michael Jordan.

mbl.is