Hollendingur til Hveragerðis

Ruud Lutterman mun leika með Hamri á næstu leiktíð.
Ruud Lutterman mun leika með Hamri á næstu leiktíð. Ljósmynd/Hamar

Körfuknattleiksdeild Hamars hefur gert samning við Hollendinginn Ruud Lutterman og mun hann leika með liðinu á komandi leiktíð.

Hamar leikur í 1. deild á næstu leiktíð, en liðið var í öðru sæti og í mikilli baráttu um að fara upp um deild þegar tímabilinu var aflýst. Voru Hamarsmenn allt annað en sáttir þegar Höttur fékk sæti í efstu deild og Hamar sat eftir með sárt ennið. 

Lutterman er 23 ára og rúmlega tveir metrar. Leikur hann sem kraftframherji og kemur hann til Hamars frá Caldwell-háskólanum þar sem hann hefur verið undanfarin fjögur ár. Skoraði hann 10,5 stig og tók 5,6 fráköst á lokaári sínu í skólanum. 

Þá hefur Lutterman leikið  með U20 og U18 ára landsliðum Hollendinga. 

mbl.is