Martin á leiðinni til München

Martin Hermannsson í leik með Alba Berlín. Hann á minnst …
Martin Hermannsson í leik með Alba Berlín. Hann á minnst átta leiki fyrir höndum í júnímánuði. Ljósmynd/Euroleague

Martin Hermannsson og félagar í Alba Berlín fara í tíu liða úrslitakeppni um þýska meistaratitilinn í körfuknattleik í næsta mánuði.

Úrslitakeppnin fer fram í München en yfirvöld í Bæjaralandi hafa samþykkt áætlanir deildarinnar. Keppni var frestað 8. mars vegna kórónuveirunnar. Félögin samþykktu síðan tillögu deildarinnar um að fella niður síðustu ellefu umferðir deildakeppninnar og í staðinn færu tíu efstu liðin í stað átta í úrslitakeppnina.

Alba Berlín var í fjórða sæti þegar keppni var stöðvuð með 28 stig en átti tvo leiki til góða á Bayern München sem var með 38 stig, Ludwigsburg sem var með 34 stig og Crailsheim sem var með 30 stig.

Liðunum verður skipt í tvo riðla. Alba verður í B-riðli ásamt Ludwigsburg, Vechta, Bamberg og Würzburg en í A-riðlunum verða Bayern München, Crailsheim, Oldenburg, Göttingen og Ulm.

Fjögur efstu liðin í hvorum riðli fara síðan í átta liða úrslit en eftir það eru leikin undanúrslit og úrslitaleikur. Dagskráin verður gefin út síðar í vikunni.

mbl.is