Meistaratitillinn truflar Garðbæinga

Arnar Guðjónsson hefur stýrt Stjörnunni frá árinu 2018.
Arnar Guðjónsson hefur stýrt Stjörnunni frá árinu 2018. mbl.is/Kristinn Magnússon

Karlalið Stjörnunnar í körfuknattleik er stórhuga fyrir næstu leiktíð, en þau Danielle Rodriguez og Ingi Þór Steinþórsson voru ráðin aðstoðarþjálfarar Arnars Guðjónssonar á blaðamannafundi liðsins í Sjálandi í Garðabænum gær.

Danielle hefur verið einn besti leikmaður Íslandsmótsins undanfarin ár og Ingi Þór er á meðal sigursælustu þjálfara landsins frá upphafi.

Garðbæingar urðu bæði deildar- og bikarmeistarar tímabilið 2018-19 og 2019-20 en liðið hefur aldrei orðið Íslandsmeistari og er stefnan sett á þann stóra á næstu leiktíð.

„Það var ákveðið að ráðast í breytingar á þjálfarateyminu þegar Hörður Unnsteinsson hætti sem aðstoðarþjálfari,“ sagði Arnar í samtali við Morgunblaðið á blaðamannafundi Stjörnunnar í Sjálandi í Garðabæ í gær. „Ég fékk að kynnast Danielle Rodriguez þegar hún spilaði með Stjörnunni tímabilið 2018-19 undir stjórn Péturs Más Sigurðssonar og hún hefur marga frábæra kosti. Hún er mjög körfuboltaþenkjandi og svo er hún líka harðdugleg. Það lá því beinast við að taka stöðuna á henni eftir að hún ákvað að hætta að spila.

Þegar það kom svo í ljós að Ingi Þór væri á förum frá KR ákvað ég að heyra í honum hljóðið enda er hann einn af sigursælustu þjálfurum okkar frá upphafi. Hann kemur inn með mikinn þunga í yngri flokka starfið og það er frábært að vera með svona góðan þjálfara þar. Þegar kemur að meistaraflokknum er hann í fyrsta lagi afar sigursæll, hann er gríðarlega hvetjandi og góður að tala við fólk. Við pössum vel saman og ég er mjög spenntur að fá hann inn í þetta.“

Leikmönnunum til góða

Arnar segist fyrst og fremst þakklátur forráðamönnum Stjörnunnar að fá tvo aðstoðarþjálfara til þess að vinna með, en Arnar hefur stýrt Garðbæingum frá 2018.

„Þetta er fyrst og fremst frábært teymi sem mun vinna bæði náið og mikið saman. Við höfum öll okkar styrkleika og þetta verður leikmönnunum fyrst og fremst til happs, held ég. Það er styttra síðan Danielle hætti að spila en við Ingi, og ég er gríðarlega þakklátur félaginu fyrir að gefa okkur þetta tækifæri að geta myndað þriggja manna þjálfarateymi.“

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »