Áskorun að taka við keflinu í Vesturbænum

Kristófer Acox hefur lært mikið af eldri leikmönnum KR-inga og …
Kristófer Acox hefur lært mikið af eldri leikmönnum KR-inga og er tilbúinn að taka við keflinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þeir sem standa næst körfuknattleiksdeild KR eru lítið að kippa sér upp við sögurnar og slúðrið í kringum Íslandsmeistarana í Vesturbænum þessa dagana að sögn Kristófers Acox, leikmanns liðsins.

Kristófer, sem er 26 ára gamall, greindist með nýrnabilun í desember á síðasta ári og það háði honum talsvert eftir áramót en hann spilaði þó tíu leiki með liðinu það sem eftir var af keppnistímabilinu.

Þá var hann einnig að glíma við meiðsli á ökkla fyrri part vetrar en hann á von á því að fá bót meina sinna á næstu vikum.

„Mér líður ágætlega þessa dagana og ég er á leið í aðgerð í fyrramálið (í dag),“ sagði Kristófer í samtali við Morgunblaðið. „Þetta verður engin svakaleg aðgerð þannig að það verða tveir til þrír dagar þar sem ég þarf kannski að taka því rólega. Ég vonast svo til þess að ná mér góðum af þessu nýrnavandamáli eftir aðgerðina og læknarnir eru bjartsýnir á að það gangi upp.

Ég er svo á biðlista að komast í aðgerð á ökkla og settur dagur, eins og staðan er í dag, er 29. júní. Vonandi kemst ég fyrr að því það mun taka mig einhvern tíma að jafna mig á þeirri aðgerð og markmiðið er að vera kominn af stað á æfingum fjórum til sex vikum eftir að ég kem úr aðgerðinni.“

Pirrandi niðurstaða

Íslandsmeistararnir voru á góðu skriði þegar tímabilinu var aflýst vegna kórónuveirufaraldursins. Liðið hafði unnið fjóra leiki í röð, meðal annars gegn deildarmeisturunum Stjörnunni og Njarðvík, og var komið í fjórða sæti deildarinnar.

„Það versta við þetta allt var að við vorum hægt og rólega að komast á beinu brautina, fannst mér. Við vorum búnir að ná í nokkra sterka sigra á liðunum í efri hlutanum og mér finnst liðið vera að komast í úrslitakeppnisgírinn ef svo má segja. Við áttum eftir að spila einn leik í deildinni þegar tímabilinu var aflýst og það er pirrandi að fá ekki almennilega niðurstöðu í tímabilið.“

Viðtalið í heild sinni má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »