Martin orðaður við eitt sterkasta lið Evrópu

Martin Hermannsson í leik með Alba Berlín.
Martin Hermannsson í leik með Alba Berlín. Ljósmynd/Euroleague

Körfuknattleiksmaðurinn Martin Hermannsson er orðaður við gríska stórliðið Panathinaikos á vefmiðlinum Sportando í dag. Er félagið eitt það sigursælasta í Evrópu. 

Martin hefur síðustu tvö ár leikið með Alba Berlín í Þýskalandi og slegið í gegn bæði í þýsku deildinni sem og í Evrópudeildinni, sterkustu deild álfunnar. Hefur hann verið einn allra besti leikmaður liðsins síðan hann kom frá Chalons-Reims í Frakklandi. 

Panathinaikos var í sjötta sæti Evrópudeildarinnar þegar tímabilinu var frestað vegna kórónuveirunnar með 14 sigra og 14 töp. Alba var í 16. sæti með 9 sigra og 19 töp og varð liðið þýskur bikarmeistari í febrúar. 

Hefur gríska liðið sex sinnum unnið Evrópudeildina, síðast árið 2011, og 37 sinnum orðið grískur meistari, þar af fjögur síðustu ár og 13 sinnum á síðustu 16 árum. Aðeins CSKA Moskva og Real Madríd hafa unnið Evrópudeildina oftar en gríska liðið. 

Fyrr í dag var Panathinaikos úrskurðaður grískur meistari en liðið var í toppsætinu með 38 stig, tveimur stigum meira en AEK, þegar tímabilinu var frestað vegna kórónuveirunnar. Ekkert lið fellur úr deildinni og enn á eftir að ákveða hvort lið fari upp úr B-deildinni og upp í efstu deild. 

mbl.is