Andstæðingar stóriðju vilja sitja fund

Andstæðingar stóriðju í Helguvík fara fram á að sitja fund …
Andstæðingar stóriðju í Helguvík fara fram á að sitja fund nýrra eigenda kísilverksmiðjunnar og bæjarstjórnar, ef af honum verður. mbl.is/Rax

Ef til fundar kemur á milli fulltrúa Stakksbergs ehf. og bæjarstjórnar Reykjanesbæjar næstkomandi mánudag, fara fulltrúar íbúasamtakanna Andstæðingar stóriðju í Helguvík fram á að fá að vera viðstaddir fundinn ásamt lögmanni samtakanna.

Þeirri ósk hefur verið komið á framfæri við fulltrúa meirihlutans í bæjarstjórn Reykjanesbæjar, samkvæmt fréttatilkynningu frá formanni íbúasamtakanna, Einari M. Atlasyni.

Eins og greint var frá hér á mbl.is fyrr í dag hafnaði umhverfis- og skipulagsráðsráð Reykjanesbæjar í gær beiðni Stakksbergs um að vinna tillögu að deiliskipulagi á kísilverinu í Helguvík, en Stakksberg er félag í eigu Arion-banka, sem keypti starfsemina í Helguvík af þrotabúi United Silicon.

Þórður Ólafur Þórðarson, stjórnarformaður Stakksbergs, sagði við mbl.is í dag að hann hefði óskað eftir skýringum frá bæjarstjórn vegna málsins og vill funda á mánudag, til að sjá hvað mönnum þótti vanta upp á tillöguna.

„Það get­ur vel verið að það sé bara mjög eðli­leg ástæða fyr­ir þess­ari niður­stöðu ráðsins. Við vilj­um bara skoða það með bæj­ar­stjórn­inni,“ seg­ir Þórður við mbl.is í dag, en eins og kemur fram hér að ofan vilja Andstæðingar stóriðju í Helguvík fá að taka þátt í þeim fundi.

Það telja samtökin vera mikilvægt fyrir sína hagsmuni, samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu formannsins.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK