Kappkosta að ljúka fjármögnun sem fyrst

„Við erum bara að vinna að þessari fjármögnun og erum …
„Við erum bara að vinna að þessari fjármögnun og erum að kappkosta við að ljúka henni sem fyrst,“ segir Máni Atlason framkvæmdastjóri Gamma. mbl.is/Arnþór Birkisson

Máni Atlason, nýráðinn framkvæmdastjóri Gamma Capital Management, vill lítið tjá sig um það hver viðbrögð skuldabréfaeigenda í Upphafi fasteignafélagi og annarra kröfuhafa hafa verið við umleitunum Gamma um að fá þá til að leggja til einn milljarð króna sem nýtt fjármagn inn í rekstur félagsins.

Greint var frá því í Morgunblaðinu í dag að til stæði að breyta skilmálum skuldabréfagáfu Upphafs sem fram fór fyrr á árinu, fresta gjalddaga höfuðstólsins um eitt ár til 30. maí 2022 og lækka fasta vexti umtalsvert, úr 15-16,5% niður í 6%. Fjárfestir, sem tók þátt í skuldabréfaútgáfunni og keypti þar umtalsverðan hlut, sagði við Morgunblaðið í dag að hann væri bjartsýnn á að endurheimta það fjármagn sem sett var í skuldabréfaútgáfuna.

En til þess verður nýtt fjármagn að fást. Skuldabréfaeigendur ættu að hafa töluverðan hvata til þess að útvega fasteignafélaginu fé til þess að yfirstíga þá erfiðleika sem urðu öllum ljósir fyrr í vikunni er gengi GAMMA: Novus, sjóðsins sem fer með eignarhald félagsins, var skrúfað úr 183 niður í 2 eftir endurmat á eignum og stöðu fasteignafélagsins.

Eigið fé sjóðsins nær þurrkaðist út við endurmatið, sem átti sér stað á þessu ári eftir að Kvika banki keypti Gamma.

„Við erum bara að vinna að þessari fjármögnun og erum að kappkosta við að ljúka henni sem fyrst,“ segir Máni í samtali við mbl.is.

Þeir sem upphaflega komu að stofnun GAMMA: Novus-sjóðsins eru hins vegar taldir hafa tapað sinni fjárfestingu, en sjóðurinn var stofnaður árið 2013 með 2,5 milljarða framlagi frá ýmsum fjárfestum, meðal annars lífeyrissjóðum og tryggingafélögum.

Fram hefur komið, meðal annars í Morgunblaðinu í dag, að sjóðsfélagar íhugi að fá óháðan aðila til að gera úttekt á því hvernig stóð á því að svo fór sem fór hjá þessum tveimur fasteignasjóðum Gamma, GAMMA: Novus og GAMMA: Anglia.

Hermann Björnsson forstjóri Sjóvár sagði við Vísi í gær að félagið áskildi sér rétt til þess að fram færi óháð könnun á því hvað fór úrskeiðis hjá fjárfestingarsjóðunum. Máni segir, spurður út í þau ummæli, að Gamma ætlaði sér að komast til botns í málinu.

„Ég hef ekki séð þessi ummæli en þetta hljómar þannig, að við séum bara sammála,“ en eins og fram hefur komið hefur Gamma tilkynnt Fjármáleftirlitinu um stöðu mála og segir Máni nú að FME verði áfram haldið upplýstu um gang mála.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK