Áhrif kyrrsetningarinnar 12,8 milljarðar

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, og Eva Sóley Guðbjörnsdóttir …
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, og Eva Sóley Guðbjörnsdóttir fjármálastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áhrif kyrrsetningar Boeing 737 MAX-véla Icelandair á rekstur félagsins á síðasta ári voru 100 milljónir Bandaríkjadala, eða um 12,8 milljarðar króna þegar tekið hefur verið tillit til bóta sem Boeing hefur greitt Icelandair. Þetta kom fram í máli Evu Sóleyjar Guðbjörnsdóttur, fjármálastjóra félagsins, á uppgjörsfundi vegna síðasta árs á Hótel Natura í morgun.

Vélarnar voru kyrrsettar í mars á síðasta ári eftir tvö flugslys vélanna á fimm mánaða tímabili. Samkvæmt áætlunum Icelandair á uppgjörsfundi í upphafi síðasta árs, áður en kyrrsetningarmálið hafði komið upp, var gert ráð fyrir að félagið væri komið með fjórtán MAX-vélar í flota sinn fyrir sumarið 2020. Bogi Níls Bogason, forstjóri félagsins, sagði á fundinum í morgun að þegar leið á sumarið hafi orðið ljóst að það myndi ekki nást og var þá horft til níu véla fyrir sumarið 2020. Síðar varð ljóst að sú áætlun var of áhættusöm og varð niðurstaðan að gera ekki ráð fyrir neinni vél.

MAX-arnir strax í notkun þegar kyrrsetningu verður lyft

Síðustu upplýsingar frá Boeing segja að félagið horfi til þess að kyrrsetningu verði aflétt í júní eða júlí á þessu ári. Er það á háönn Icelandair og hefur félagið gefið út að flugáætlun félagsins geri ekki ráð fyrir því að MAX-vélarnar verði komnar í notkun fyrr en eftir sumarið, sem að sögn Boga er eftir miðjan september.

„En Boeing hefur sagt að júní/júlí sé síðasta dagsetningin og versta sviðsmyndin sem þeir gera ráð fyrir. Þeir horfa því væntanlega til þess að þetta verði eitthvað fyrr. Ef það gerist þá munum við taka vélarnar okkar fyrr í rekstur,“ segir Bogi, enda séu þær hagkvæmari í rekstri en núverandi floti.

Icelandair er með þrjár Boeing 737-800 vélar á leigu vegna MAX-kyrrsetningarinnar. Spurður hvort Icelandair hafi gert ráðstafanir til að hafa þær vélar lengur í leigu ef frekari seinkanir verða varðandi að koma MAX-vélunum í loftið. Bogi segir að ein vélanna sé í langtímaleigu en tvær í skammtímaleigu út sumarið. Þó að það kæmi til seinkunar segir Bogi það ekki vandamál. „Við erum búin að klára okkar varaplön og gangsetja fyrir háönnina. Svo fyrir háönnina þurfum við færri vélar þannig að við náum að leysa það.“

Ákvörðun um endurskoðun flugflota að vænta á fyrri hluta ársins

Bogi segir að áhrif kyrrsetningarinnar í fyrra hafi verið mikil, en að félagið áætli að þau verði mun minni á þessu ári. Í samtali við mbl.is segir hann að það sé meðal annars vegna þess að núna sé flugáætlunin skipulögð með lengri fyrirvara og félagið geti fengið hagstæðari kjör á leiguflugvélum sem gripið var til. Spurður nánar út í hvað hvað hann áætli lækkunina á kostnaði mikla segir Bogi að félagið gefi ekki þá tölu upp.

Endurskoðun flotans á að liggja fyrir áður en árið er …
Endurskoðun flotans á að liggja fyrir áður en árið er hálfnað. mbl.is/Eggert

Í fyrra var greint frá því að Icelandair væri með vinnu í gangi varðandi endurskoðun á flugvélaflota félagsins til framtíðar. Eru þar uppi þrjár sviðsmyndir sem til skoðunar eru. Í fyrsta lagi að halda sig við núverandi flotastefnu. Í öðru lagi að taka Airbus-vélar inn að hluta, en sú innleiðing yrði þá nokkuð fljótlega. Í þriðja lagi væri svo að færa sig alfarið á Airbus-vélar, en sú þróun yrði yfir nokkuð langan tíma.

Bogi greindi frá því á fundinum í morgun að ákvörðunar um þetta væri að vænta á næstu mánuðum og alla vega á fyrri hluta ársins. „Gefum okkur fram í júní, en þetta gæti gerst fyrr,“ segir Bogi.

Leggja upp með að fá bætur fyrir heildartjón af kyrrsetningu

Sem fyrr segir hefur Icelandair fengið bætur vegna kyrrsetningar MAX-vélanna. Félagið hefur ekkert viljað gefa upp um upphæðir í því sambandi og vísað til þess að trúnaður sé í viðræðum við Boeing. Spurður hvort bæturnar séu bein peningagreiðsla eða tengdar uppgjöri á kaupum á MAX-vélunum segir Bogi að hann geti ekkert sagt til um eðli samninganna.

Bæturnar sem hafa fengist eru þó ekki fullnaðarbætur. „Við erum í viðræðum við Boeing um bæði árið í fyrra og þetta ár. Við erum ekki að nota vélarnar eins og við ætluðum að nota þær,“ segir Bogi. Spurður hvort félagið leggi upp með að fá bætur fyrir heildartjón félagsins af völdum kyrrsetningarinnar segir Bogi að félagið fari nú yfir rekstraráhrifin með Boeing. „Við vitum ekki hvernig niðurstöður verða í þeim viðræðum, en já það er alltaf markmiðið,“ segir hann.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK