Safna hálfum milljarði í skuldabréfaútboði

Fyrirtæki geta fengið kröfur borgaðar strax.
Fyrirtæki geta fengið kröfur borgaðar strax. Ljósmynd/Aðsend

Fjártæknifyrirtækið Kríta hf. hyggst safna hálfum milljarði króna í skuldabréfaútboði sem auglýst verður og kynnt fjárfestum í vikunni. Ekki er langt síðan hlutafé félagsins var tvöfaldað og aukið um 50 milljónir, eins og mbl.is greindi frá á dögunum.

Sigurður Freyr Magnússon, forstjóri Kríta, vonast eftir góðum áhuga hjá fjárfestum á útboðinu, enda hafa umsvif Kríta vaxið um 50-60% í hverjum mánuði frá því að fyrirtækið hóf að markaðssetja þjónustu sína í fyrra. Freyr segir í samtali við Morgunblaðið að útboðið nú sé haldið til að mæta þeim mikla vexti.

Hann segir að ástæðan fyrir vinsældum þjónustu fyrirtækisins sé meðal annars sú að margir viðskiptavina Kríta vilji fjölga valkostum sínum þegar kemur að fjármálaþjónustu. Þá hugnist mönnum vel að verið sé að tæknivæða og einfalda ferlið við fjármögnun krafna.

Til að útskýra nánar hvaða þjónustu Kríta býður upp á segir Freyr að fyrirtækið fjármagni kröfur hjá fyrirtækjum og beiti til þess fjártækni sem bjóði upp á meiri skilvirkni og hraða en áður hafi þekkst við fjármögnun krafna. „Ferlið við reikningagerð og stofnun krafna hjá fyrirtækjum er óbreytt og birtast kröfur fyrirtækjanna í netbanka viðskiptavina þeirra með sama hætti og áður. Kríta fær aðgang að kröfunum og les þær inn í sitt kerfi og þar geta viðskiptavinir okkar, í gegnum vefviðmót Kríta, séð allar kröfurnar og hakað við þær sem óskað er eftir að við fjármögnum.“

Með orðinu „fjármagna“ á Sigurður við að Kríta borgi stóran hluta af kröfunni strax til síns viðskiptavinar, þó svo að eindaginn sé kannski miklu síðar. „Þannig þarf viðskiptavinurinn ekki að bíða eftir að krafan verði greidd, heldur borgar Kríta kröfuna strax og peninganna er þörf í rekstrinum.“

Aðspurður segir hann að greiðandi kröfunnar verði ekki var við neitt í ferlinu. „Við í raun fyrirframgreiðum reikninginn upp að ákveðnu hámarki og tökum veð í kröfunni. Kerfið okkar vaktar hvenær greiðandi greiðir reikninginn sem við höfum fjármagnað og um leið og greiðsla berst framkvæmir kerfið uppgjör á fjármögnun okkar ásamt þóknun, en millifærslu- og uppgjörsferlið er að fullu sjálfvirkt.“

Vinna í samræmi við PSD2

Freyr segir að Kríta hagi vinnu sinni til samræmis við evrópska PSD 2 (Payment Services Directive) greiðslumiðlunarstaðalinn, þannig að fyrirtækið sé tilbúið að hagnýta sér allt það sem staðallinn býður upp á um leið og full innleiðing á sér stað í fjármálakerfinu á Íslandi. Staðallinn gengur út á að samræma greiðslukerfi og gera fjártæknifyrirtækjum kleift að nýta sér gögn úr bankakerfinu m.a. til að búa til virðisaukandi þjónustu fyrir fyrirtæki í tengslum við fjármál þeirra.

Sigurður Freyr Magnússon, forstjóri Kríta.
Sigurður Freyr Magnússon, forstjóri Kríta.

Um næstu framtíð Kríta segir Freyr að viðbúið sé að umsvifin vaxi mikið, enda sé þjónustan eftirsótt. „Við erum stöðugt að þróa tæknina á bak við þetta. Næsta skref er að gera viðmótið þægilegra, fjölga vörum okkar og búa til viðbótarþjónustu úr þeim gögnum sem viðskiptavinir okkar veita okkur aðgang að. Til dæmis gætum við aðstoðað fyrirtæki við að hafa betri yfirsýn yfir fjármál sín, spáð fyrir um lausafjárstöðu þeirra og komið með ábendingar um fjármögnunarlausnir eftir því sem við á. Markmið Kríta er að beita fjártæknilausnum til að einfalda líf fyrirtækja við fjármálastjórn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK