Allt að 400% aukning á pöntunum hjá Aha.is

Maron ásamt sendingu frá Aha.is sem send var með dróna …
Maron ásamt sendingu frá Aha.is sem send var með dróna í fyrra. Jón Páll Vilhelmsson

3-400% aukning hefur orðið á pöntunum hjá fyrirtækinu Aha.is á síðustu þremur vikum en fyrirtækið sér um að keyra veitingar, matvöru og aðrar vörur heim til fólks fyrir hin ýmsu fyrirtæki. 

Starfsfólk Aha.is var því farið að finna fyrir auknu álagi áður en samkomubann tók gildi síðastliðinn mánudag. 

„Þetta var farið að hafa veruleg áhrif hjá okkur fyrir samkomubannið. Það má segja að við höfum eiginlega verið á fullu síðan fyrsta smitið greindist hérlendis hinn 28. febrúar. Við höfum verið að auka við á öllum sviðum síðan þá þannig að við höfum bæði fjölgað bílstjórum allverulega og stækkað netþjónana hjá okkur og svo framvegis,“ segir Maron Kristófersson, framkvæmdastjóri Aha.is. 

Samhliða því að fást við þessa gríðarlegu aukningu á pöntunum hefur Aha.is farið að vinna út frá sinni eigin viðbragðsáætlun vegna COVID-19. 

„Við vorum tilbúnir með viðbragðsáætlun við COVID-19 fimm dögum áður en fyrsta smitið greindist á Íslandi. Síðan erum við búin að uppfæra hana fimm sex sinnum og bæta við og herða á í hvert skipti. Þetta eru orðnar allt að sextíu vinnueiningar, bílstjórarnir eru hver sín vinnueining og allir starfsmenn sem geta vinna heiman frá sér þannig að það er ekkert auðvelt að takast á við svona gríðarlega stækkun samtímis á svona stuttum tíma,“ segir Maron.

Netverslanir í Bretlandi hafa hrunið

Hann hefur fylgst vel með netverslun í Evrópu og bendir Maron á að í Bretlandi séu flestar netverslanir lokaðar eða hafa hrunið vegna álags og mikil töf sé á sendingum. 

„Svo þeir sem eru að standa í þessu hérna heima eru að vinna algjört þrekvirki í að láta þetta ganga upp. Maður er svo ótrúlega þakklátur fyrir það hvað þetta er frábært samstarfsfólk sem maður vinnur með. Mér finnst við hafa lært alveg ótrúlega mikið á síðustu vikum og hafa lagað mjög mikið í ferlunum til þess að takast á við þessa stækkun.“

Mest er fólk að panta frá Nettó, en Aha.is sér alfarið um netverslun og heimkeyrslu fyrir Nettó. 

„Það hefur líka verið mikið um pantanir hjá veitingastöðum og ég vil hvetja fólk til þess að styðja við sína veitingastaði í þessu því það eru ekki auðveldir tímar hjá þeim og þeir eru að gera sitt besta til þess að mæta fólki,“ segir Maron.

mbl.is

Kórónuveiran

31. mars 2020 kl. 13:07
1135
hafa
smitast
173
hafa
náð sér
36
liggja á
spítala
2
eru
látnir
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK