Ferðaþjónustan muni vaxa og dafna að nýju

Skúli Mo­gensen stofnaði flugfélagið WOW air.
Skúli Mo­gensen stofnaði flugfélagið WOW air.

„Aldrei nokkurn tímann hefði ég trúað því að nákvæmlega ári eftir fall WOW air væri nánast hvert einasta flugfélag í heiminum á barmi gjaldþrots og að leita á náðir ríksvalda um ríkisaðstoð með einum eða öðrum hætti.“

Á þessum orðum hefst pistill sem Skúli Mogensen, stofnandi og fyrrverandi forstjóri flugfélagsins WOW air, skrifar á Facebook-síðu sína. Ár er í dag liðið frá gjaldþroti félagsins.

„Það hefur vart liðið sá dagur allt síðasta ár þar sem ég hef ekki spurt mig hvað hefðum við getað gert betur eða öðruvísi til að tryggja áframhaldandi rekstur WOW air. Margir hafa spurt mig undanfarna daga hvort ég sé ekki feginn að vera ekki enn þá í þessum blessaða flugrekstri í þessum ólgusjó að heyja lífróður enn eina ferðina en staðreyndin er sú að ég vildi hvergi annars staðar vera,“ skrifar Skúli.

„Vissulega er flugrekstur krefjandi og aðstæður nú engu líkar og ég finn virkilega til með mínum fyrrverandi kollegum út um allan heim þessa dagana sem eru án efa að leggja nótt við dag í að bjarga sínum félögum líkt og við gerðum fyrir ári síðan og ég vona innilega að það takist. Þau eiga öll heiður skilið fyrir að standa vaktina því það er til mikils að vinna, sérstaklega hér á Íslandi þar sem ferðaþjónustan er orðin hryggjarstykkið í íslensku atvinnulífi.“

Allt í hendi til að byggja upp fyrirmyndarsamfélag

Ísland sé eyland og sennilega hafi aldrei verið jafn augljóst og nú hversu mikilvægar alþjóðlegar tengingar og samgöngur séu fyrir þjóðarbúið.

„Það skiptir miklu máli við núverandi aðstæður að gleyma sér ekki um of í smáatriðunum og fyrirsögnum dagsins heldur geta horft á stóru myndina og þá staðreynd að Ísland er einstakt land með magnaða náttúru, sögu, menningu, fólk og margar af helstu auðlindum framtíðarinnar svo sem víðáttu, hreina orku, hreint vatn og loft, fiskinn í sjónum, jafnrétti og grunnstoðir sem á heildina litið virka mjög vel eins og við sjáum þessa dagana. Við höfum því allt í hendi að halda áfram að byggja hér upp fyrrimyndarsamfélag og ég er sannfærður um að ferðaþjónustan muni dafna og vaxa á nýjan leik þegar fram líða stundir.“

WOW air hafi verið einstakt fyrirtæki

Skúli nefnir að í dag hafi hann farið ásamt fjölskyldu sinni að skoða Gullfoss og Geysi og fleiri náttúruperlur.

„Það var mun meira fólk á ferðinni en ég átti von á þó að vissulega og eðlilega voru allir varir um sig og maður kinkaði kolli við mann og annan þvert yfir tún og göngustíga. Það var mjög gaman að sjá Íslendinga á ferð um landið okkar og að njóta fegurðarinnar. Vonandi vöknum við aðeins til lífsins og notum tækifærið og ræktum garðinn okkar og kynnumst hvert öðru betur þegar upp er staðið.

Ég er óheimju stoltur af því sem við byggðum upp hjá WOW air og hvernig við áttum þátt í því að reisa við Ísland eftir fjármálahrunið og skapa þúsundir starfa og tugi milljarða í gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið. WOW air var einstakt fyrirtæki með gríðarlega öflugu starfsfólki sem stóð þétt saman og ég sakna þeirra á hverjum einasta degi. Eina eftirsjá mín er að hafa ekki getað gert meira til að bjarga félaginu.

Farið vel með ykkur og stöndum vörð um hvert annað.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK