Kredia verður NúNú

Leifur Haraldsson er einn stærsti eigandi Orka Holding.
Leifur Haraldsson er einn stærsti eigandi Orka Holding.

Smálánafyrirtækið Kredia Group Ltd. mun starfa undir nýju nafni á Íslandi í kjölfar þess að Orka Holding hefur nú keypt öll hlutabréf félagsins. Nýja nafnið er NúNú. 

Í fréttatilkynningu segir Leifur Haraldsson, forsvarsmaður og einn stærsti eigandi Orka Holding, að Orka ætli sér á að byggja upp annars konar viðskiptamódel en verið hefur hjá félaginu undanfarin ár. Um er að ræða útgáfu alþjóðlegra greiðslukorta með betri virkni og minni tilkostnaði en aðrir útgefendur korta almennt bjóða. Í tilkynningunni segir jafnframt að Orka muni starfa í fjórum löndum til að byrja með en ætlunin er að bjóða þjónustu fyrirtækisins um alla Evrópu.

„Hér á Íslandi munum við starfa undir vörumerkinu NúNú og bjóða upp á hagkvæma fjármögnun á sanngjarnan, einfaldan og þægilegan hátt. Fljótlega verður hægt að skrá sig fyrir kortum og munum við hefja afhendingar í júní,“ segir Leifur í tilkynningunni um fyrirætlanir fyrirtækisins á íslenskum markaði. 

Á skjön við samfélagsleg gildi

Í tilkynningunni kemur fram að Leifur hafi verið einn af stofnendum Kredia á sínum tíma en hafi sagt skilið við félagið í árslok 2013. „Ég þekki því ágætlega til fyrirtækisins en við ætlum að byggja á öðru viðskiptamódeli.“

Leifur segir einnig að undanfarin ár hafi viðskiptamódel Kredia Group Ltd. verið „á skjön við flest okkar samfélagslegu gildi“. Hann segir að hins vegar sé viðskiptavinahópur Kredia Group mjög stór og hafi töluverða reynslu af því að nýta sér fjártækni í skammtímafjármögnun.

Bjóða ekki smálán

„Það er áhugavert fyrir fyrirtæki eins og Orka og NúNú sem einblína á fjártækni og smellpassar því fyrir plön okkar um útgáfu kreditkorta og einfalda og þægilega fjártækniþjónustu fyrir einstaklinga. Við munum ekki bjóða smálán heldur stunda samkeppni við fjármálastofnanir landsins með betri lausnum sem bjóða upp á meiri einfaldleika og þægindi fyrir viðskiptavini.“

Leifur segir að þetta fyrirkomulag gefi félaginu tækifæri til að byggja upp gott langtímasamband við viðskiptavini sína. „Við höfum lengi verið að undirbúa evrópskt fjártæknifyrirtæki sem auðveldar fólki lífið með t.d. rafrænum kortum sem bjóða upp á fjölda gjaldmiðla og minni tilkostnaði, allt niður í frí kortagjöld,“ segir Leifur í tilkynningunni. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK