Tilgangurinn að nýta sér rekstrartapið

Bjarni Ármannsson fjárfestir og eigandi Sjávarsýnar ehf.
Bjarni Ármannsson fjárfestir og eigandi Sjávarsýnar ehf.

Venjulegur og eðlilegur rekstrartilgangur lá að mati Landsréttar ekki að baki samruna Sjávarsýnar ehf., félags fjárfestisins Bjarna Ármannssonar, og félagsins Imagine Investment ehf., á árinu 2012. Þvert á móti taldi Landsréttur tilgang samrunans vera að nýta uppsafnað rekstrartap Imagine investment. Þetta kemur fram í dómi Landsréttar sem gekk á þriðjudag.

Landsréttur sneri þar með við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá mars í fyrra. Snerist umrætt mál í grófum dráttum um hvort skilyrði laga um tekjuskatt hefðu verið uppfyllt þegar Sjávarsýn og Imagine Investment voru sameinuð og Sjávarsýn færði yfirfæranlegt tap Imagine Investment frá árunum 2008 og 2009 til frádráttar tekjum sínum á skattframtölum sínum árin 2013 og 2014 og nýtti hið sameinaða félag rekstartapið í skattskilum sínum.

„Í sams konar rekstri“

Í dómi sínum rakti Landsréttur að samkvæmt lögum um tekjuskatt væri það m.a. skilyrði fyrir því að rekstrartap flyttist við samruna til þess félags sem tæki við að félögin hefðu með höndum skyldan rekstur eða starfsemi. Þá flyttist tap ekki milli félaga við sameiningu þegar það félag sem slitið væri ætti fyrir slitin óverulegar eignir eða hefði engan rekstur með höndum. Jafnframt yrði sameining félaga að vera gerð í venjulegum og eðlilegum rekstrartilgangi og hið yfirfærða tap að hafa myndast í sams konar rekstri og það félag sem við tæki hefði haft með höndum. 

Í málinu var óumdeilt að hin sameinuðu félög hefðu uppfyllt þau skilyrði að hafa með höndum skyldan rekstur og að tap hins yfirtekna félags, Imagine investment, hefði myndast í sams konar rekstri og Sjávarsýn hefði haft með höndum. Hins vegar hefði, eins og að framan greinir, Sjávarsýn ekki tekist að sýna fram á að venjulegur og eðlilegur rekstrartilgangur hefði legið að baki samrunanum. Segir Landsréttur enn fremur: „Þvert á móti væri nærtækast að líta svo á, að öllum atvikum virtum, að tilgangur sameiningarinnar hefði í reynd verið sá að nýta uppsafnað rekstrartap hins yfirtekna félags.“

82 milljónir

Í héraðsdómi hafði ríkið verið dæmt til að greiða Sjávarsýn ríflega 82 milljónir króna á grundvelli laga um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, auk vaxta og málskostnaðar, en sem fyrr segir var með dómi Landsréttar dómur héraðsdóms felldur úr gildi og Sjávarsýn gert að greiða ríkinu 1.500.000 krónur í málskostnað.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK