Frekari uppsagnir á komandi vikum

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir frekari uppsagnir óhjákvæmilegar.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir frekari uppsagnir óhjákvæmilegar. mbl.is/Árni Sæberg

Óhjákvæmilegt er fyrir Icelandair að segja upp fleira starfsfólki á næstu vikum vegna stöðunnar sem er uppi í rekstri félagsins vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Enn hefur ekkert verið ákveðið með fjölda starfsmanna sem þarf að segja upp, en vonir standa til að hægt verði að ráða fólk aftur þegar aðstæður verði aftur betri. Þetta segir Bogi Nils Bogason, forstjóri félagsins, í samtali við mbl.is.

Í morgun sendi félagið frá sér tilkynningu til Kauphallarinnar þar sem greint var frá því að félagið hygði á hlutafjárútboð til að styrkja bæði lausa­fjár- og eig­in­fjár­stöðu fé­lags­ins sem og að tryggja sam­keppn­is­hæfni þess til framtíðar. Tekið var fram að forsenda fyrir slíku útboði væri að samkeppnishæfni félagsins væri tryggð til lengri tíma og væri háð því að viðræður við stéttarfélög skili árangri, sem og viðræður við fjár­mögn­un­araðila, flug­véla­leigu­sala og birgja.

Rætt óformlega og almennt við stærstu eigendur

Stærstu eigendur Icelandair eru lífeyrissjóðir með 43,6% hlut í félaginu, en stærsti einstaki eigandinn er bandaríski fjárfestingasjóðurinn PAR capital management með 13,7%. Þá eiga aðrir hlutabréfa- og verðbréfasjóðir í eigu íslensku bankanna 14,4% í félaginu. Samtals eru þetta um 72% af bréfum félagsins.

Spurður út í viðræður við þessa stærstu eigendur segir Bogi að farið hafi verið yfir stöðuna óformlega og almennt við stærstu eigendur miðað við tilkynningu félagsins í síðustu viku, en of snemmt sé að segja til með um viðbrögð þessara eigenda. Hann segist hins vegar bjartsýnn á að félagið geti orðið samkeppnishæft á alþjóðavettvangi og þar með vænlegur fjárfestingakostur.

Langtímasamningar við flugstéttirnar grundvallaratriði

Samningar við þrjár flugstéttir sem starfa hjá félaginu; flugvirkja, flugmenn og flugfreyjur- og þjóna, eru nú annaðhvort lausir eða losna á þessu ári. Bogi segir að grundvallaratriði sé að ganga frá samningi til lengri tíma við þessar stéttir þar sem fjárfestar þurfi að hafa langtímasýn á reksturinn og þá þurfi að vera hægt að sýna fram á að félagið sé samkeppnishæft á alþjóðavettvangi. „Við teljum þetta nauðsynlegt svo að fjárfestar komi að félaginu. Við höfum fengið skilaboð þar um,“ segir Bogi.

Icelandair flýgur nú aðeins um 5% af áætluðri flugáætlun sinni.
Icelandair flýgur nú aðeins um 5% af áætluðri flugáætlun sinni.

Segir samanburð launahlutfalls ósanngjarnan

Launamál Icelandair hafa lengi verið umfjöllunarefni fjölmiðla og nú síðast í Viðskiptablaðinu í dag sem bendir á að launakostnaður Icelandair hafi verið 20-35% hærri en hjá WOW air. Bogi segir þetta hins vegar ekki sanngjarnan samanburð. „Það er oft verið að taka okkar launahlutföll og af því eru svo dregnar rangar ályktanir.“

Segir Bogi að þegar launahlutfall Icelandair sé skoðað þurfi að huga að því að þar séu til dæmis laun úr öllum rekstri félagsins. Inn í það komi til dæmis launakostnaður í hótelrekstri sem almennt sé mjög hár. Þá sé líka mismunandi hvaða starfsfólk flugfélög ráði til sín og hvað sé aðkeypt þjónusta. Vísar hann til þess að hjá Icelandair sé afgreiðslustarfsfólk á Keflavíkurflugvelli, en víða sé sú þjónusta útvistuð. „Það segir enga sögu að bera saman launahlutföll nema að kafa dýpra,“ segir Bogi.

Spurður hvort þetta þýði að Icelandair sé með samkeppnishæf laun og ekki þurfi að koma til launalækkana segir Bogi að hann telji að félagið þurfi að gera betur varðandi launakostnað, en það séu mörg tækifæri til að þess sem miði að því að lækka einingarkostnað. „Við teljum að gera þurfi betur þar til lengri tíma.“

„Ekki að fara að leggja helming flotans til framtíðar“

Í tilkynningu félagsins í morgun kom fram að félagið þyrfti að grípa til frekari aðgerða til að komast í gegnum þetta tímabil núna, en í dag flýgur Icelandair um 5% af áætlaðri flugáætlun sinni að sögn Boga. „Meðan sú staða er uppi verðum við að grípa til aðgerða til að lækka kostnað,“ segir Bogi. Hann tekur þó fram að tryggja þurfi að félagið hafi þann sveigjanleika að geta stokkið aftur af stað strax og eftirspurn tekur við sér Vandamálið sé hins vegar að ekki sé vitað hvernig sú þróun verður.

Í Viðskiptablaðinu í dag kom fram að félagið væri meðal annars að skoða að skera flotann niður um helming. Spurður um þessar áætlanir segir Bogi að ljóst sé að félagið nýti í dag minna en helming véla sinna. Hins vegar sé ástandið í flugheiminum í dag ekki þannig að álitlegt sé að selja flugvélar. „Við erum ekki að fara að leggja helming flotans til framtíðar,“ segir hann, en bætir við að það þurfi að bregðast við núverandi stöðu.

„Óhjákvæmilegt“ að ráðast í frekari uppsagnir

Hjá félaginu störfuðu í fyrra að meðaltali rúmlega 4.700 manns. Í síðustu uppsagnahrinu fyrr á þessu ári var 240 starfsmönnum sagt upp og stærstur hluti færður í hlutastarfaleiðina sem ríkisstjórnin kom á. Spurður hvort koma þurfi til frekari uppsagna segir Bogi svo vera. „Já, við sjáum fram á það. Það er óhjákvæmilegt, á þessu óvissutímabili sem er að lengjast, að segja upp fleira fólki,“ segir hann og bætir við að þar sé hann að horfa til uppsagna á næstu vikum.

Hann segist hins vegar horfa til þess að þegar þessu tímabili lýkur og starfsemin sé aftur komin vel í gang verði hægt að ráða þetta starfsfólk aftur. Spurður út í fjölda starfsmanna sem komandi uppsagnir muni ná til segir Bogi að engar tölur liggi enn fyrir þar um.

Efnisorð: Icelandair
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK