„Ekki okkar mat að loforð hafi verið svikin“

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, hafnar því að bréfaskrif …
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, hafnar því að bréfaskrif hans til starfsmanna flugfélagsins hafi verið brot á loforðum eða hafi verið inngrip í kjaraviðræður. mbl.is/Árni Sæberg

„Hugsunin með þessu er sú að við höfum haft góða upplýsingagjöf til starfsmanna að leiðarljósi undanfarið. Við erum í þessu verkefni núna og tímaramminn er þröngur og við vildum upplýsa starfsmenn hvað félagið hefði lagt á borðið og skýra það út.“

Þetta segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í samtali við mbl.is spurður að því hver hugsunin á bak við bréfaskrif hans til flugfreyja annars vegar og flugmanna hins vegar hafi verið. Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) og Flugfreyjufélag Íslands (FFÍ) hafa lýst yfir óánægju með bréfaskrifin og þau jafnvel sögð „grafalvarlegt inngrip í kjarasamningsviðræður“.

Tilgangurinn að veita upplýsingar milliliðalaust

Í bréfinu skrifaði Bogi að tilgangurinn með sendingu þess hefði verið að veita upplýsingar um samningstilboð félagsins milliliðalaust. Spurður hvort það megi skilja þau skrif þannig að Bogi telji að samninganefndirnar séu að matreiða tilboð Icelandair með óeðlilegum hætti til félagsmanna eða hann óttist að félagsmenn skilji ekki hvað í þeim felist neitar hann því.

„Þetta snýst ekki um það að við teljum að einhver sé að túlka eitthvað með óeðlilegum hætti. Þetta er bara upplýsingagjöf sem við vildum koma á framfæri,“ tekur hann fram.

Segir bréfið ekki inngrip í kjaraviðræður

Sigrún Jónsdóttir, formaður samninganefndar Flugfreyjufélags Íslands, tjáði sig um bréf Boga í stöðufærslu í lokuðum hópi flugfreyja og gagnrýndi það harðlega. Sagði hún að samninganefnd FFÍ hefði mótmælt því í fyrrakvöld í húsakynnum ríkissáttasemjara að Icelandair gripi á þennan hátt inn í kjaraviðræður. Lögfræðingur ASÍ sem hafi verið á staðnum hafi stutt samninganefnd FFÍ og að samninganefnd Icelandair hafi gengist við því að slíkt bréf yrði ekki sent beint á flugfreyjur.

„Þetta er grafalvarlegt inngrip í kjarasamningsviðræður í besta falli. […] Svona vinnubrögð eru engum til sóma svo ég taki ekki sterkar til orða,“ skrifaði Sigrún. En þrátt fyrir að samninganefnd Icelandair hafi fallist á að slíkt bréf yrði ekki sent telur Bogi hvorki að loforð hafi verið svikin né að um inngrip í kjaraviðræður hafi verið að ræða.

Vildi upplýsa starfsmenn um þrönga stöðu

„Það er ekki okkar mat að loforð hafi verið svikin í þessu. Fundurinn gekk ekki í gær og það var ekki útlit fyrir að það yrðu fleiri fundir og við höfum lítinn tíma í þessu verkefni sem við erum hérna í og staðan er þröng. Þess vegna vildum við upplýsa okkar starfsfólk hvað við værum að vinna með og skýra það út,“ útskýrir Bogi.

Þá segir hann viðræður við flugfreyjur ekki hafa átt sér stað síðan fundi hjá ríkissáttasemjara var slitið í gær en samtöl við flugmenn séu í gangi. Þess ber að geta að kjaradeila Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Icelandair er ekki á borði ríkissáttasemjara líkt og deila flugfélagsins við Flugfreyjufélag Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK