Hjálpar fyrirtækjum að undirbúa líf eftir faraldur

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á kynningarfundi ríkisstjórnarinnar um aðgerðir stjórnvalda …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á kynningarfundi ríkisstjórnarinnar um aðgerðir stjórnvalda vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Um er að ræða nýtt úrræði um tímabundna heimild atvinnufyrirtækja til endurskipulagningar á fjárhag sínum. Úrræðið mun hjálpa fyrirtækjum að komast í skjól með einfaldari og kostnaðarminni hætti,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is.

Áslaug var spurð um frumvarp hennar sem var samþykkt á ríkisstjórnarfundi í morgun og varðar fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja. Frumvarpið auðveldar fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir tekjumissi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru að komast í greiðsluskjól.

Veigamiklar breytingar á almennum reglum

„Það er brýnt að skapa fyrirtækjum ráðrúm til að taka á þeim skyndilega rekstrarvanda sem skapast hefur vegna heimsfaraldursins. Með því að komast fljótt og örugglega í skjól geta fyrirtækin unnið úr sínum málum og undirbúið sig fyrir þann tíma þegar efnahagslífið tekur við sér á nýjan leik,“ segir Áslaug og útskýrir betur:

„Um er að ræða veigamiklar breytingar frá þeim reglum sem almennt gilda um greiðslustöðvun og nauðasamninga. Breytingarnar stuðla að því að úrræði um greiðsluskjól nýtist þeim atvinnufyrirtækjum sem eiga í greiðsluvanda vegna heimsfaraldursins og komi að gagni svo fljótt sem verða má.“

Mun nýtast stórum og smáum fyrirtækjum

Eins og áður segir var frumvarpið samþykkt af ríkisstjórninni á fundi hennar fyrr í dag og búist er við því að það verði lagt fram á þingfundi sem hófst klukkan þrjú á mánudaginn.

Áslaug segir að úrræðið muni nýtast stórum sem smáum fyrirtækjum og gera þeim kleift að komast í greiðsluskjól með einfaldari og kostnaðarminni hætti. Einnig eru heimildir til frjálsra samninga í lok greiðsluskjóls auknar og gerð nauðasamninga einnig einfölduð.

Gert er ráð fyrir því að fyrirtæki geti verið í greiðsluskjóli í allt að 12 mánuði, en sækja þarf um úrræðið fyrir 1. janúar 2021.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK