Í öllum vondum aðstæðum felast tækifæri

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, ræddi við …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, ræddi við mbl.is eftir ríkisstjórnarfund í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, vonast til þess að endurræsing ferðaþjónustunnar, og atvinnulífsins í heild, geti hafist fyrr en talið hefur verið hingað til eftir gott gengi Íslendinga í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn síðustu vikur.

„Það eru margir þættir sem eru að ganga betur heldur en við héldum fyrir stuttu síðan en það er ennþá þannig óvissa að ég held að við þurfum að vera með báða fætur á jörðinni hvað það varðar,“ segir hún í samtali við mbl.is en tekur fram að mörg jákvæð teikn hafi verið á lofti undanfarið.

Mjög jákvætt að ferðamenn séu jákvæðir í garð Íslands

Markaðskönnun Icelandair greindi mikinn áhuga ferðafólks á Íslandi og stór hluti þeirra sem tók þátt í þeirri könnun sagðist hafa áhuga á því að koma hingað til lands. 86% svarenda sagðist treysta Íslandi þegar kemur að málefnum tengdum útbreiðslu kórónuveirunnar. Spurð hvort að þessi áhugi sé merki um að Íslendingar hafi haldið rétt á spilunum segist Þórdís geta tekið undir það að einhverju leyti.

„Það er að sjálfsögðu mjög jákvætt og við höfum nú verið á því frá upphafi að í öllum vondum aðstæðum felist alltaf einhver tækifæri. Við höfum auðvitað fært miklar fórnir til þess að ná tökum á veirunni og í því felast tækifæri fyrir ferðaþjónustuna í framtíðinni,“ segir hún og bætir við:

„Við munum þurfa að lesa í ferðahegðun fólks og svo framvegis. Það er mjög gott að erlendir ferðamenn hafi áhuga og hug á því að koma til Íslands og ég vonast auðvitað til þess að það muni fleiri líta til þess að það sé öruggt að koma hingað. Takmarkandi þátturinn er flugið og óvissan þar.“

Tæki mörg ár að fylla í skarð Icelandair

Rætt hefur verið um að flugfélögin Bláfugl (e. Bluebird Nordic) og Play geti fyllt í skarðið að einhverju leyti fari svo að Icelandair verði gjaldþota. Þannig væri hægt að halda uppi flugsamgöngum til og frá landinu tímabundið.

„Heilt yfir vona ég að það verði nægt framboð af flugi til og frá landinu. Ég vona að það verði samkeppni á þeim markaði, neytendum til góða. Ég held að það sé ekki raunhæft að það komi nýr aðili sem fylli í skarð Icelandair vegna þess að það er auðvitað áratugavinna þar að baki og það myndi taka, að ég tel, allmörg ár að byggja upp slíkt leiðarkerfi í þeim skala sem Icelandair hefur verið með,“ segir Þórdís um þær hugmyndir en bætir við:

„En ég óska öllum góðs gengis sem vilja auka flugframboð til og frá landinu og sérstaklega þeim sem vilja hafa höfuðstöðvar hér á Íslandi.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK