Spá metlágum stýrivöxtum

Greiningardeild Íslandsbanka spáir stýrivaxtalækkun.
Greiningardeild Íslandsbanka spáir stýrivaxtalækkun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Greiningardeild Íslandsbanka spáir því að stýrivextir verði lækkaðir um 0,5 prósentustig við næstu vaxtaákvörðun á miðvikudag. Gangi spáin eftir verða meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, 1,25%. Stýrivextir voru lækkaðir tvívegis á tveggja vikna tímabili í mars, samtals um eitt prósentustig eru þeir nú 1,75%. Hafa þeir aldrei verið lægri.

Í þjóðhagsspá greiningardeildarinnar, sem birt var í gær, er því spáð að stýrivextir fari áfram lækkandi fram eftir ári og verði 0,75% í lok september. Þá verði atvinnuleysi að meðaltali 9,6% í ár. 

Í tilkynningu frá greiningardeildinni segir að nú séu liðnir tæpir tveir mánuðir frá síðustu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar og á þeim tíma hafi skammtímahorfur í efnahagslífinu dökknað jafnt og þétt á sama tíma og verðbólga og verðbólguhorfur hafi haldist tiltölulega stöðugar. „Það er því að okkar mati full ástæða til þess að stíga frekara skref í áttina að auknum slaka í peningastefnunni.

Verðbólga mældist 2,2% í apríl og hefur ekki breyst að viti frá því kórónuveirufaraldurinn reið yfir þrátt fyrir að gengi krónunnar hafi veikst um nær 15%. Segir greiningardeildin að ýmsir þættir skýri það, meðal annars lækkun olíuverðs á heimsvísu, minni hækkun íbúðaverðs og minni eftirspurn almennt, sem dregur úr verðþrýstingi.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK