c

Pistlar:

8. janúar 2020 kl. 13:04

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fólksflutningar og fólksfjölgun

Við Íslendingar höfum vanist því að lifa fá í til þess að gera stóru landi. Lengst af var það okkur erfitt, landið var harðbýlt og farartálmar svo miklir að nánast lá við að heilu landshlutarnir væru einangraðir. Enn erum við að reyna að brjóta af okkur þau landfræðilegu vistarbönd sem fósturjörðin setur á okkur. Samgöngur eru sem fyrr erfiðar og dýrar í okkar fámenna landi og augljóslega vandasamt að útdeila þeim takmörkuðu fjármunum sem við höfum í þann málaflokk svo vel fari. Nú búa um tveir þriðju hlutar landsmanna á höfuðborgarsvæðinu sem virðist ekki einfalda málin.

En sé litið til fólksfjölgunarþróunar og breytinga í heiminum má vera ljóst að margt kann að breyttast og hefur reyndar þegar breyst eins og kom fram í pistli hér síðasta haust. Háspá Hagstofunnar gerir ráð fyrir að landsmenn verði 400 þúsund árið 2030 sem þýðir fjölgun upp á um 45 þúsund manns. Hver spáir skiptir máli.fjöldi

Fjölgunin á skrið

Þessi fjölgun hér heima er ekki mikið í hinu alþjóðlega samhengi en eins og kom fram í samantekt í síðasta pistli þá munu íbúar heimsins ná því að verða 7.800 milljónir nú á þessu ári, líklega fyrr en síðar. Það tók mannkynið 200.000 ár að ná einum milljarði en bara 200 ár að ná 7 milljarða markinu. Þegar fjölgunin komst á skrið tóku hlutirnir að gerast hratt.

Fjöldi jarðarbúar hefur tvöfaldast síðan 1970 en tíu árum áður náði náði mannfjöldahröðunin hámarki. Þrátt fyrir umtalsverðan samdrátt á fæðingartíðni þá gera spár ráð fyrir að mannfjöldi í heiminum verði nálægt 11.000 milljónum árið 2100. Spá Hagstofunnar nær ekki lengra en til ársins 2068 en þá geri miðspá ráð fyrir að Íslendingar verði 435 þúsund talsins. Þá er gert ráð fyrir að jarðarbúar verði um 10.400 talsins. Semsagt Íslendingum fjölgar um 80 þúsund en jarðarbúum um 2.400 milljónir til ársins 2068.

Erlend fæddum Íslendingum fjölgar

Engin leið er að segja til um hvaða áhrif þetta hefur á íslenskt samfélag en augljóst er að aukin ásókn verður erlendis frá og hlutfall erlend fæddra Íslendinga mun halda áfram að hækka. Það mun setja margvíslegar samfélagslegar áskoranir á okkar litla land. Augljóslega er mikilvægt að aðlögun aðfluttra Íslendinga gangi vel en í aðlögunarferlinu verður til nýr velferðarflokkur sem sogar til sín mikið fjármagn. Í dag fara um sex til sjö milljarðar á ári í hælisleitendur og flóttamenn. Mikilvægt er að halda þessum kostnaði innan skynsamlegra marka. Við höfum lagt áherslu á að gera vel við flóttamenn en komið heldur illa fram við hælisleitendur. Spurning hvort ekki sé skynsamlegt að flytja færri til landsins og færri burtu?

Ofurborgir framtíðar

Slíkar áskoranir tengdar fólksflutningum - innan sem utan landa - verða víða. Gera má ráð fyrir að flutningur fólks til borga haldi áfram og margar spár ganga út frá því að ofurborgir verði til (e.megacity) séu þær ekki til nú þegar. Nú er miðað við borgir með fleiri en 10 milljónir íbúa en spár gera ráð fyrir að þeim fjölgi hratt en 2017 töldust þær vera 47 í heiminum. Í Kína er lögð áhersla á að þróa svæði með allt að 50 til 100 milljónir manna þar sem innviðum er ætlað að stuðla að hámarkshagkvæmni samfélagsins.

Ef spár ganga eftir mun íbúum fjölga hraðast í fátækustu ríkjum heims á meðan mörg efnameiri lönd munu þurfa að glíma við fólksfækkun. Þetta skerpir án efa á fólksflutningum. Í mörgum löndum Evrópu væri fólksfækkun ef ekki kæmi til aðflutningur fólks. Það getur skapað spennu til skemmri tíma ef aðlögun gengur ekki vel og hefur komið róti á hið pólitíska ástand.

Breytt aldurssamsetning

Víða er aldurssamsetning að breytast og það hefur mikinn vanda í för með sér. Í Rússlandi fækkar fólki og hafa yfirvöld gripið til þess ráðs að hvetja til barneigna enda andsnúnir innflutningi fólks. Japönum fækkar um sem svarar Íslendingum á hverju ári og eru stöðugt færri virkir á vinnumarkaði. Japanir eru eins og Rússar og vilja síður opna landamæri sín fyrir aðfluttum. Umönnunarstéttir kalla á nýtt vinnuafl en Japanir virðast að hluta til ætla að treysta á vélmenni til þess að sjá um aldraða í framtíðinni. Það er sérkennileg framtíðarsýn en Japanir verja háum upphæðum í þróun slíkra vélmenna.

Allt þetta segir okkur að fjölgun mannkynsins mun setja nýjar áskoranir á lífríki jarðarinnar, ekki síður en samfélögin. Sumir telja að fólksflutningar muni aukast í kjölfar loftslagsbreytinga en það er fremur byggt á ágiskun en spá en sem fyrr má gefa sér að hlutirnir breytist mikið og kalli á ný úrræði og nýjar lausnir.