c

Pistlar:

9. janúar 2020 kl. 20:30

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Áhugaverð fyrirtæki: Naust Marine og Curio

Velgengnissögur í íslensku atvinnulífi hafa verið raktar hér í nokkrum greinum. Sem betur fer finnast þær margar og eru sjálfsagt fleiri en margir halda. Ekki er vanþörf á að segja frá því jákvæða sem þar er að gerast. Hér verður stuttlega tæpt á sögu tveggja fyrirtækja sem eigi það sameiginlegt að án íslensks sjávarútvegs hefðu þau ekki orðið til.

Velta félagsins Naust Marine hf. er áætluð um 2,5 milljarðar króna á þessu ári. Ef þessar áætlanir ganga eftir verður veltuaukningin um 60% á milli ára. Dótturfélagið Naust Marine á Spáni hefur vaxið mjög í kjölfar verkefna sem þar eru unnin fyrir og með Naust Marine Ísland. Þá gjarnan í sambandi við stór verkefni fyrir bæði rússneskar og bandarískar útgerðir. Þess má geta að félagið rekur einnig útbú í Seattle sem þjónustar þarlenda aðila þannig að erlend starfsemi er umtalsverð.front_rafdrfnarvindur

„Framtíðin er rafdrifin“ „Við sjáum að auknar kröfur í umhverfismálum hafa nú veruleg áhrif á val rafknúins búnaðar umfram gömlu glussakerfin en það er skiljanlegt,“ sagði Bjarni Þór Gunnlaugsson framkvæmdastjóri í samtali við Viðskiptablaðið á síðasta ári. Þar benti hann á að víða í heiminum séu háar sektir við því að missa niður til dæmis glussaolíu í höfnum. „Þannig að fyrir utan miklu skilvirkari og hagkvæmari búnað er líka verið að fá með þessu hreinna og betra umhverfi“.

Naust Marine ehf. var stofnað árið 1993 og fagnaði því 25 ára afmæli sínu á síðastaári. Það ver stofnað með það að markmiði að þróa og markaðssetja búnað fyrir sjávarútveg og annan iðnað. Aðalverkefni fyrirtækisins hefur fram til þessa verið þróun og framleiðsla sjálfvirka togvindukerfisins ATW CatchControl (Automatic Trawl Winch) sem og hönnun og smíði á öllum helstu vindum og ýmsum búnaði fyrir fiskiskip.

Félag á vegum Magnúsar V. Snædal stjórnarformanns Naust Marine hf. og Bjarna Þórs Gunnlaugssonar framkvæmdastjóra keypti meirihluta hlutafjár félagsins á síðasta ári og eiga þeir félagar nú rúmlega 80% samtals eins og kom fram í Viðskiptablaðinu. Magnús hefur verið stjórnarformaður félagsins í tæp 7 ár og Bjarni Þór framkvæmdastjóri síðan 2007.

Curio

Stórfyrirtækið Marel festi kaup á 40% hlut í Curio fyrir stuttu. Við þann hlut bætast 10% árið 2021 auk forkaupsréttar á stærri hlut síðar meir. Aðalstarfsemi fyrirtækisins fer fram hér á landi. Curio er starfandi í fjórum húsum í Hafnarfirð og hefur auk þess útibú, þjónustu og framleiðsludeild á Húsavík.

Curio var ekki svo mjög þekkt áður en greint var frá kaupunum en fyrirtækið var stofnað árið 2008 af Elliða Hreinssyni, framkvæmdastjóra og fagnar því 12 ára afmæli á þessu ári. Þrátt fyrir aldurinn telst Curio vera nýsköpunarfyrirtæki en það vinnur að þróun fiskvinnsluvéla sem auka nýtingu og skila betri afurð í vinnslu á bolfiski í afhausun, flökun og roðflettingu. Samhliða þessu hefur félagið öryggismál og þrif að leiðarljósi.

Óhætt er að segja að þróunarstarf félagsins hefur skilað sér í nýjum og áhugaverðum vinnsluvélum, sem hafa skilað félaginu mikilli veltuaukningu á undanförnum árum. Síðari ár hefur félagið lagt sífellt meiri áherslu á þróunarstarf og eru starfsmenn félagsins að vinna að þróun á nýrri vélalínu fyrir lax og bleikju. Prófanir eru þegar hafnar og lofa góðu.

Í frétt í 200 mílum, blaðið Morgunblaðsins um sjávarútveg, kom fram að Curio mun starfa áfram sem sjálfstæð eining en gerður hefur verið samstarfssamningur í sölu-, markaðs- og þróunarmálum. Marel verður sjálfkrafa umboðsaðili alls staðar þar sem Curio er ekki með umboðsaðila fyrir. Fyrir vikið mun fyrirtækið bæta við sig stóru markaðssvæði. Forráðamenn félaganna hafa látið hafa eftir sér að Curio hafi verið tannhjól sem fellur vel inn í starfsemi Marels. „Við rekumst hvergi á Marel í framleiðslu. Marel vantaði okkar vöru inn í hvítfiskslínurnar hjá sér til þess að loka pakkanum. Það að bjóða heildarlausnir er alltaf að aukast; að einn aðili komi og skaffi allt í verksmiðjurnar. Þá lá beinast við að draga okkur að borðinu. Við höfðum unnið með Marel áður í verkefnum sem heppnuðust mjög vel bæði innanlands og utan,“ segir Elliði í samtali við Morgunblaðið.Roflettivel-C2031

Hlaut nýsköpunarverðlaun

Curio hlaut nýsköpunarverðlaun Íslands í ár eftir að hafa lokið við fimm ára uppbyggingu. Félagið byggði tvö hús og bætti við sig fjölda framleiðsluvéla og tækja. Um leið var félagið að taka í notkun nýja þjónustu og framleiðsludeild í Skotlandi en fyrirtækið hefur hreiðrað um sig í Peterhead í Skotlandi, skammt frá Aberdeen. Þar er stærsti fiskmarkaður í Evrópu og menn sjá fram á að verði mikil uppbygging í fiskvinnslu á næstu árum.“

Stefnt er að því að tvöfalda framleiðsluna á næsta ári en fyrir stuttu tók félagið í notkun rúmlega 1.300 fermetra í viðbót og er að fá meira af nýjum framleiðsluvélum. Á næsta ári er gert ráð fyrir að tvöfalda framleiðslugetu fyrirtækisins.

Tekjur Curio munu að sögn framkvæmdastjórans nema 10-12 milljónum evra í ár, eða um 1,4 til 1,7 milljörðum króna. Stærstur hluti tekna fyrirtækisins felst í sölu á flökunarvélum sem aðgreindar eru í sex mismunandi útfærslum. Fyrirtækið framleiðir um það bil eina vél á viku, eða um 52-54 vélar á ári, en þar af nemur fjöldi flökunarvéla um 17-20, sem jafnframt eru dýrustu vörur fyrirtækisins. Fyrirtækið hlaut fyrr á þessu ári 2,3 milljóna evra styrk frá Evrópusambandinu um nýja klumbuskurðarvél, sem sker klumbubeinið af bolfiski.