c

Pistlar:

20. janúar 2020 kl. 22:37

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ekkert banaslys varð til sjós við Ísland

Ekkert banaslys varð til sjós við Ísland í fyrra. Þetta er þriðja árið í röð sem enginn ferst við störf um borð í íslensku fiskiskipi. Síðasta banaslys til sjós varð árið 2016, þegar tveir menn fórust. Ég hef bent á þetta nokkuð ítarlega í pistlum hér en það var fyrst árið 2008 sem enginn sjómaður lést við störf til sjós hér við land. Það vakti furðu litla athygli en þessi ánægjulegu tíðindi endurtóku sig árið 2011 og 2014 og nú hafa þrjú ár bæst við, 2017, 2018 og 2019. Fyrir ári síðan benti pistlahöfundur á þetta undir fyrirsögninni: „Stóra fréttin sem allir missa af.“ Það hefði mátt nota hana aftur núna.sjómenn

Eins og var rakið í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins hefur árið ekki byrjað vel til lands og tíð og alvarleg umferðarslys orðið. Þess gleðilegra er að allir sæfarendur við strendur landsins skuli komi heilir heim. Af því eru þó litlar fréttir sagðar og ég hef aðeins séð þess getið á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Engar fréttir eru fluttar af þessu á vefsvæðum samtaka sjómanna né á opinberum síðum sem tengjast sjávarútvegi, að því er séð verður. Hugsanlega telja menn þetta ekki tíðindi lengur en við getum svo sannarlega minnst þess að þetta hefur ekki alltaf verið svona og augljóslega hafa orðið miklar breytingar á öryggi íslenskra sjómanna. Það hefur verið sett saman frétt af minna tilefni.

Þegar Morgunblaði 20. aldar er flett má segja að reglulega birtist forsíður með myndum af sjómönnum, sem farist höfðu í sjóslysum. Hér hefur áður verið vitnað til skrifa Steinars J. Lúðvíkssonar rithöfundar sem hefur rakið sögur af baráttu íslenskra sjómanna við Ægi í ritröðinni, „Þrautgóðir á raunastund“. Steinar hefur meðal annars tekið saman fjölda þeirra sem fórust í sjósköðum við Ísland á liðinni öld. Þeir eru á fimmta þúsundið. Bara árið 1959 fórust 59 sjómenn og á árunum 1966 til 1970 fórust alls 101 sjómaður.

Viðeigandi minnismerki

Við Íslendingar höfum furðu lítið gert til að halda þessum þætti í sögu okkar á lofti, fyrir utan framtak Steinars. Öðru hvoru hafa menn nefnt að það væri ástæða til að reisa viðeigandi minnisvarða um þennan þátt í sögu þjóðarinnar, svona til að heiðra þá sjómann sem hafa fengið vota gröf. Nú síðast varð Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritstjóri til þess að vekja máls á slíku.

Fjöldi látinna á sjó hefur dregist saman úr 25 á ári að jafnaði á árunum 1958-1967 í um það bil 1 á ári að jafnaði á árunum 2008-2017. Enginn hefur látist í sjóslysum á árunum 2017, 2018 og 2019. Helstu ástæður fyrir þessari fækkun eru raktar í skýrslu um öryggi sjófarenda eins og fjallað var um hér fyrir stuttu. Þar segir að ástæðurnar megi rekja til betri skipa og eftirlits, áhrifa fiskveiðistjórnunarkerfisins sem hefur dregið úr sjósókn í vondum veðrum, betri þjálfunar sjómanna með tilkomu Slysavarnaskóla sjómanna, tilkomu vaktstöðvar siglinga, eflingu Landhelgisgæslunnar, tilkynningaskyldu íslenskra skipa sjómanna, árangurs af öryggisáætlun sjófarenda og aukin öryggisvitund meðal sjómanna og útgerða.