c

Pistlar:

23. febrúar 2020 kl. 22:21

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hvernig samfélagsmiðlar breyta heiminum

Það eru tæplega tíu ár síðan Facebook náði því marki að notendur komust upp í 500 milljónir. Þá var félagið aðeins sex ára gamalt. Fyrir þremur árum fóru notendur yfir tvo milljarða og nú eru þeir taldir vera um 2,4 milljarðar. Dálagleg tala en við blasir að fjölgun þeirra verður hægari á næstunni, einfaldlega vegna þess að af 7,7 milljörðum jarðarbúa þá hafa aðeins um 3,4 milljarðar aðgang að neti. Nú þegar er Facebook að þjónusta um 70% þeirra sem hafa aðgang að neti í heiminum. Það er staða sem engan gæti hafa rennt í grun en hafa verður í huga að Kínverjar hafa sett miklar hömlur á Facebook í Kína og bjóða sinn eigin samfélagsvefi, með WeChat í broddi fylkinga. En Facebook er ekki eini samfélagsmiðilinn sem er í sókn, Youtube og Whatsapp hafa einnig komist yfir það mark að vera með milljarð notenda.facebook

Samfélagsmiðlar (e. social media) drottna yfir samfélagsumræðunni í heiminum og soga til sín gríðarlegar upplýsingar um notendur sína sem gerir þá að risaveldum þegar kemur að auglýsingum. Gervigreind þessara fyrirtækja sér til þess að hægt er að elta uppi hvern og einn og sníða þjónustu og markaðssetningu að því. Það getur ritari þessa pistils vitnað um en stutt bílaleit fyrir skömmu gerði mig að auðveldu skotmarki fyrir auglýsingar, sem stundum voru merkilega nálægt því sem verið var að hugsa um þá og þá stundina. Svona er veruleikinn, við deilum hugsunum okkar með samfélagsmiðlunum sem eru að breyta heiminum. Þeir hafa áhrif á hegðun okkar og jafnvel hugsun. Fyrir tilstyrk þeirra finnur fólk vörur og þjónustu, fóstrar með sér nýjar langanir og stjórnar því hvernig við sækjum upplýsingar og kynnumst hugmyndum og skoðunum annarra. Það er jafnvel svo að þeir eru farnir að stýra því hvernig fólk finnur sér maka.

Upprisa samfélagsmiðlanna

Upphaf samfélagsmiðla má rekja aftur til aldamótanna. Fyrsta samfélagssíðan til að ná til milljón notenda var MySpace sem náði því árið 2004, sama ár og hinn þá tvítugi Mark Elliot Zuckerberg setti á stofn Facebook. Engin deilir þó um að MySpace markar upphafið en síðan hafði þegar á reyndi ekki það til að bera sem þurfti. Árið 2008 voru Hi5, MySpace og Friendster en keppinautar við Facebook en árið 2012 voru allar þessar síður horfnar af sjónarsviðinu. Um tíma árið 2006 fór MySpace fram úr Google sem mest sótta vefsíða Bandaríkjanna. Sumar þessar síður, eins og Facebook, YouTube and Reddit, hafa verið að lengur en einn áratug en um leið sjáum við að enn er tækifæri fyrir nýjar samfélagssíður með nýjar lausnir.

Þannig má taka dæmi af TikTok sem fór af stað í september 2016 og tveimur árum seinna var síðan komin með hálfan milljarð notenda. Til að setja hlutina í samhengi má benda á að TikTok aflar sér að meðaltali um 20 milljónir nýrra notenda í hverjum mánuði. Margar af þeim síðum sem hafa lifað af síðasta áratuginn hafa þurft að breyta viðskiptamódeli sínu verulega. Sem dæmi má taka að Twitter leyfði notendum sínum ekki að hlaða upp myndböndum eða myndum til að byrja með. Því var breytt árið 2011 og í dag er það einmitt það sem um það bil helmingur notenda Twitter gerir.

Yfirburðir Facebook

Facebook hefur það fram yfir flesta samfélagsmiðla að vera með breiða skírskotun á meðan sumir höfða aðeins til tiltekinna aldurshópa. Þannig eru notendur Snapchat og Instagram að langstærstum hluta ungt fólk en ungt fólk notar samfélagsmiðla ákafar og lengur en þeir eldri. Aðrir samfélagsmiðlar skiptast eftir kyni. Þannig eru konur helmingi líklegri til að nota Pinterest á meðan því er alveg öfugt farið með Reddit, þar eru það karlmenn sem eru í meirihluta notenda.

Margir velta því eðlilega fyrir sér hvernig notkun samfélagsmiðla munu þróast. Ekki aðeins stjórnendur þeirra heldur einnig þeir sem fást við samfélagslega greiningu og vilja átta sig á hver lýðræðisþróunin verður á heimsvísu. Þar gegna samfélagsmiðlar stóru hlutverki, hvort sem okkur líkar betur eða verr.