c

Pistlar:

28. febrúar 2020 kl. 16:18

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hvernig útgerðin lifði af og fór ekki til helvítis

„Íslenskur sjávarútvegur stenst erlendum keppinautum okkar ekki snúning, eins og staðan er í dag, og í raun og veru mun íslenskur sjávarútvegur stefna beint norður og niður til helvítis, verði ekki gripið í taumana.“

Svona komst Einar Oddur Kristjánsson, þáverandi formaður Vinnuveitendasambandsins og stjórnarmaður í Samtökum fiskvinnslustöðva, að orði í ræðu sinni á aðalfundi samtakanna 28. september 1991. Í sama streng tók Arnar Sigurmundsson, formaður Samtaka fiskvinnslustöðva, á sama fundi. Arnar skóf ekki af því að venju og benti á að það væru margir óvissuþættir sem íslenskur sjávarútvegur stæði frammi fyrir á þeim tíma. Arnar sagði að lítið væri hægt að fullyrða um hvað gerist á næstu misserum, en eitt væri þó víst og það væri að framundan væri harður vetur í rekstri og afkomu sjávarútvegsfyrirtækja hér á landi.sjávar1

Svona var nú umræðan á þessum tíma. Sjávarútvegurinn barðist í bökkum og rekstrarstaðan fullkomlega óviss. Útgerðin á þeim tíma skuldaði Byggðastofnun og Atvinnutryggingasjóði háar upphæðir. Háar prósentuhækkanir á laun skiluðu engu og verðbólgan óð áfram. Ríkisstjórnin hafði hins vegar ákveðið að útgerðin yrði að komast af sjálf og krónan yrði ekki feld til að bjarga útgerðinni.

Verðum að verjast harðri samkeppni

Þessi orð eru enn merkilegri þegar þau eru metin í tengslum við umræðu um sjávarútveg í dag sem mótast af því að aukaatriði verða að aðalatriðum og fjölmiðlaumfjöllun mótast af því. Það var því hressandi að heyra Ragnar Árnason hagfræðiprófessor taka til máls á opnum fundi SFS í Messanum síðastliðin miðvikudag. Innlegg Ragnars var stutt. Hann minnti einfaldlega á að íslenskur sjávarútvegur væri í harðri samkeppni á heimsvísu og mikilvægt væri að varðveita stöðu hans sem slíka. Ekkert væri sjálfgefið í þeim efnum.

Við getum fagnað því í dag að íslenskri útgerð tókst að reka af sér slyðruorðið, lifa af þær hremmingar sem stöðugt sóttu að henni og hún varð smám saman að best reknu útgerð í heimi. Væri ekki nær hætta að velta fyrir sér hvernig ríkissjóður getur kreist sem flestar krónur út úr útgerðarfyrirtækjum og byrja að skoða þess í stað hvernig samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs á erlendri grundu getur aukist, eða í það minnsta haldist gagnvart keppinautum okkar, sem allir njóta ríkisstuðnings í einni eða annarri mynd? Ísland tilheyrir hópi fremstu fiskveiðiþjóða heims, bæði þegar kemur að tæknistigi og umfangi, þannig verðum við að halda því og til þess að svo geti orðið þarf útgerðin að hafa afl til að fjárfesta. Um leið eigum við að kynna og selja getu okkar sjávarútvegs til annarra þjóða sem þurfa að bæta þekkingarstig sitt.

Nú er rætt um að hefja ríkisstuðning við íslenska fjölmiðla. Jafnvel að nokkur hundruð milljónir króna fari í það á ári. Það kemur þá til stuðnings við aðrar greinar menninga- og lista. Upphæðirnar eru háar þegar saman kemur. Reyndar er það svo að hugsanlega dygði til endurreisnar íslenskra fjölmiðla að taka Ríkisútvarpið út af auglýsingamarkaði og hætta að mismuna íslenskum fjölmiðlum þegar kemur að áfengisauglýsingum. Stundum liggja lausnirnar í augum uppi.