c

Pistlar:

2. mars 2020 kl. 22:23

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Frelsi til að versla og auglýsa löglega vöru

Dómsmálaráðherra hefur boðað að hún vilji afnema bann við áfengisauglýsingum. Um leið hefur hún kynnt í samráðsgátt breytingu á áfengislögum sem fela í sér undanþágu frá einokun Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis til neytenda þannig að lagt er til að heimilaður verði rekstur innlendra vefverslana með áfengi í smásölu til neytenda.

Hvorugt þessara frumvarpa felur í sér byltingu en sannarlega má sjá ákveðna breytingu þeim samfara. Vilji ráðherra fyrir afnámi bans við áfengisauglýsingum byggist meðal annars á þeim rökum að þær virki ekki. Þá mismuni það íslenskum framleiðendum. Frumvarp þess efnis er í vinnslu í ráðuneytinu.wine

Eins og venjulega þegar sala og meðhöndlun áfengis er til umræðu eru þær raddir háværar sem vilja takmarka og hefta sölu og dreifingu vörunnar. Skiptir litlu þó að hér sé tekist á um frelsi til að versla og auglýsa löglega vöru. Já, sala og meðhöndlun áfengis er lögleg en einhverra hluta vegna finnst ákveðnum hluta þjóðarinnar nauðsynlegt að takmarka aðgengi að henni. Má í því sambandi rifja upp þá umræðu sem var um bjórinn þegar hann var heimilaður fyrir 31 ári. Sá er þetta skrifaði var þingfréttaritari þegar lögleiðing bjórsins var samþykkt og fylgdist með umræðunni á þeim tíma. Augljóslega rættist ekkert af þeim mörgu bölsýnisspám sem andstæðingar bjórsins settu út og drógu þeir ekki af sér þar. Nú virðast margir hafa þörf fyrir að draga keimlíkar spár á flot. Því skyldum við trúa þeim nú?

Mismunar fyrirtækjum og einstaklingum

Það er forvitnilegt að lesa þær umsagnir sem eru komnar inn í samráðsgáttina vegna vefverslunar með áfengi. Þar hafa nokkrir litlir innflytjendur lýst skoðun sinni og er sérlega áhugvert að lesa lýsingar þeirra á því hvernig afstaða neytenda til víns hefur breyst. Allir virðast þeir vera að sinna þörf sem ÁTVR hefur hundsað, þ.e.a.s. þörf fyrir vistvæn vín sem unnin eru af litlum aðilum og seld af mikilli virðingu fyrir vörunni. Kerfið virðist hannað fyrir þá stóru eins og það er í dag. Þessir litlu innflytjendur vilja einfaldlega fá tækifæri til að kynna og selja vöru sína í stað þess að vara festir í viðjum kerfis sem hampar þeim sem eru fyrir í fleti. Er það ekki sanngjörn krafa?

Þarna skrifar til dæmis Kristján Jónas Svavarsson sem á og rekur fyrirtæki sem heitir KLIF ehf: „Mitt mat er að úrval og verð verði betra með að opna fyrir netverslun með áfengi innanlands. Að mínu mati mun þessi breyting laga „drykkjumenningu“ Íslendinga, svipað og þegar bjór var leyfður til sölu. Núverandi kerfi er líka ekki í samtímanum og mismunar fyrirtækjum og einstaklingum. Það er í hæsta máta óeðlilegt að erlendar sölusíður geti selt áfengi á Íslandi en ekki innlendar, nema ÁTVR.“

Annar innflytjandi, Arnar Sigurðsson, sem sérhæfir sig í handverksvínum frá Frakklandi, kemur með eftirfarandi ábendingu: „Handverk í framleiðslu á vörum með sérstöðu á skiljanlega erfitt uppdráttar í samkeppni við stórar iðnaðarsamsteypur sem keppt geta í krafti stærðarhagkvæmni og magnframleiðslu. Sérstaða minni framleiðenda getur einfaldlega falist í staðsetningu framleiðslunnar í hreinni náttúru Íslands, staðarhráefnum, sérlundaðri framleiðslutækni osfrv. Að hefta starfsemi lítilla handverksbrugghúsa með úreltum viðskiptaháttum á borð við ríkiseinokunarverslunum stenst auðvitað enga skoðun.“ Arnar bendir á þá fráleitu mismunun að það sé í lagi að versla við vínsala á netinu, svo framarlega sem hann hafi ekki lögfesti á Íslandi!

Allt þetta sýnir hve úrelt og skammsýn núverandi löggjöf er.

Erlendar áfengisauglýsingar í lagi en ekki innlendar

En skoðum aðeins áfengisauglýsingar. Þar gildir það sama, auglýsingar á áfengi í erlendum fjölmiðlum seldum á Íslandi eru í lagi en ekki ef þær eru í íslenskum fjölmiðlum. Þetta er auðvitað fráleit mismunun en ætla má að íslenskir fjölmiðlar verði þarna af talsverðum auglýsingatekjum og íslenskir neytendur fá ekki þær upplýsingar um vöruna sem auglýsingar geta veitt. Það sýnir einnig mikið skilningsleysi á þróun mála að vera að agnúast út í áfengisauglýsingar í blöðum og tímaritum með vísun í að það hafi áhrif á unglinga. Flestir átta sig á að unglingar lesa blöð og tímarit lítið. Þeir nota samskiptamiðla og þar flæða áfengisauglýsingar ef svo stendur á. Reyndar vinna algóritmarnir þannig að þú þarft fyrst að sýna efninu áhuga áður en auglýsingin berst til þín.

Af þessu má vera ljóst að lýðheilsusjónarmið og verndun barna og unglinga á bara ekki við og þetta hafa svo sem aldrei verið gild rök. Höfum í huga að varan er lögleg nú þegar og auglýsingar hafa ekki áhrif á heildar neysluna heldur bara á val milli einstakra tegunda. Ljóst er að íslenskir fjölmiðlar eiga nú mjög undir högg að sækja og það væri einföld aðgerð að leyfa áfengisauglýsingar. Vel má þá horfa til þess að banna þær í Ríkissjónvarpinu, svona rétt til að jafna samkeppnisstöðuna. Vonandi er að bæði þessi frumvörp nái fram að ganga.