c

Pistlar:

9. mars 2020 kl. 13:52

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fólksfækkun og flutningur vinnuafls

Fyrir stuttu var greint frá því að bæjaryfirvöld í bænum Teora í Campania á Ítalíu bjóði nú barnafjölskyldum fría leigu í tvö ár flytji þær til bæjarins. Teora er ekki fyrsti bærinn á Ítalíu sem reynir að laða til sín fleiri íbúa, en fjöldi fámennra bæja víða um Ítalíu hefur boðið húsnæði gegn lágu gjaldi til þeirra sem vilja flytja þangað. Víða á Ítalíu eru bæir að grotna niður af þeirri einföldu ástæðu að fólki flytur í burtu til borganna um leið og fólki fækkar á landsvísu. Ítalía eins og mörg önnur lönd Evrópu fæst nú við umtalsverða fólksfækkun. Sem dæmi má taka að Serbar eru í dag um 8 milljónir en því er spáð að þeir verði komnir niður í 5 milljónir innan nokkurra áratuga. Sveitirnar á Ítalíu og í Serbíu eru að tæmast og þetta á við víða á Balkanskaganum. Víða er hægt að fá hús gefins ef fólk fjárfestir í viðhaldi þeirra og tekur á sig skuldbindingar gagnvart samfélaginu.

Portúgal kallar eftir sínu fólki

Mörg lönd Evrópu glíma við svipaða hluti en fjallað hefur verið um mannfjöldaþróun hér í pistlum öðru hvoru. Í tveggja ára gamalli skýrslu Evrópusambandsins var gert ráð fyrir að Evrópubúum myndi lítið sem ekkert fjölga til ársins 2070, þeir muni fara úr 511 milljónum í 520 milljónir og fólki á vinnualdri fækka um tæplega 10%. Um leið blasir við að borgirnar munu halda áfram að draga til sín fólk og halda mun áfram að fækka í sveitum. Ágæt dæmi er hið sólríka Portúgal. Þrátt fyrir fagrar strendur og heillandi mannlíf þá býr og starfar furðu hátt hlutfall Portúgala erlendis. Langvarandi atvinnuleysi og slök laun hafa hvatt ungt fólk til að leita á ný mið. Á árunum eftir bankakreppuna, eða á milli áranna 2011 og 2014, fluttu um 50 þúsund Portúgalar í burtu.

Nú vilja portúgölsk yfirvöld hins vegar fá þetta fólk aftur heim en það vantar fólk í margvísleg störf enda hefur efnahagurinn smám saman verið að taka við sér aftur eftir bankahrunið. Nýleg könnun sýndi að helmingur stjórnenda í landinu taldi sig þurfa að ráða nýtt fólk. Stjórnvöld hafa meira að segja ákveðið að reyna að lokka brottflutta heim með ýmsum gylliboðum. Meðal annars getur fólk sem flytur heim notið margvíslegra hlunninda fyrstu þrjú árin eftir heimkomu. Mest munar líklega um skattaafslátt sem nemur helmingi af tekjuskatt fyrstu fimm árin eftir heimkomu. Það munar um það en sérstak skattahlunnindi eru síðan til fólks með verðmæta menntun. Nú þegar er Portúgal með margvísleg hlunnindi til fjárfesta og þeirra sem geta skapað ný störf.mannf

Pólland vill sitt fólk heim

En Portúgal er ekki eina landið sem reynir að lokka fólk heim. Pólland hefur sett af stað margvíslegar ráðstafanir sem ætlað er að fá aftur heim eitthvað af þeim tæplega 1,7 milljón manns sem farið hafa úr landi á síðustu 15 árum. Við Íslendingar gætum verið viðkvæmir fyrir breytingum í Póllandi en hér eru ríflega 20 þúsund Pólverjar starfandi á íslenskum vinnumarkaði og gegna mikilvægu hlutverki.

Það var bent á það hér í pistli fyrir stuttu að án aðfluttra stefnir í verulega fækkun á Íslandi. Þegar fjölmennasti árgangur Íslandssögunnar fæddist árið 1960 eignuðust íslenskar konur að meðaltali fjögur börn um ævina en síðan 2012 hefur hlutfallið ekki farið yfir tvö. Fækkunin er hraðari en nokkurn óaði fyrir. Árið 2018 var það 1,7 börn sem þýðir að ef ekkert annað kæmi til myndi íbúum landsins fækka. Þeirri þróun hefur verið skotið á frest, þar sem uppgangstímar hafa laðað að sér tugi þúsunda útlendinga. Hversu staðfastir þeir verða hér á landi er óvíst en þeir fjölgar hratt á atvinnuskrám. Stór hluti þeirra eru frá Póllandi en þaðan koma vinsælir starfskraftar. Ágætt ástand er nú í Póllandi og því hugsanlegt að margir þeirra hverfi aftur á æskustöðvarnar teygist úr kreppunni hér. Pólland vill enda fá sitt fólk heim aftur eins og áður sagði.

Álag á velferðarkerfið

En þessi breyting í Evrópu getur auðvitað haft áhrif á innflytjendastefnu landanna. Auðvitað vilja flest lönd fá menntað vinnuafl en í sumum tilvikum getur skipt miklu að fá ungar og vinnufúsar hendur. Í sumum tilvikum falla innflytjendur inn í bótakerfi velferðarkerfisins og verða þannig fremur byrði en til bóta. Hugsanlega verða löndin með bestu velferðakerfin að endurskipuleggja afstöðu sína til innflytjenda sem oftar en ekki misskilja eða misnot bótakerfið í stað þess að láta til sín taka á vinnumarkaði. Það er erfitt að sætta sig við slíkt um leið og fjölgun aldraðra, aukin og útvíkkaður bótaréttur og dýrari sjúkdómar setja stöðugt meira álag á velferðarkerfið. Í áðurnefndri skýrslu var gert ráð fyrir að aldraðir, 67 ára og eldri, yrðu ríflega helmingur mannfjöldans. Þegar spár um hlutfall vinnandi gagnvart ellilífeyrisþegum eru skoðaðar sést að gert er ráð fyrir að hlutfallið fari úr 3,3 vinnandi á hvern íbúa yfir 65 ára aldur niður í 2 vinnandi á hvern ellilífeyrisþegar. Það segir sig sjálft að þetta setur mikið álag á eftirlaunakerfið og ljóst að þjóðir Evrópu þurfa að hugsa þessi mál öll í samhengi.