c

Pistlar:

12. mars 2020 kl. 21:35

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Velgengnisvandi sjávarútvegsins

Íslenskur sjávarútvegur hefur að margar áliti búið við of mikla velgengni eða það sem mætti kalla velgengisvanda. Kann að koma á óvart, en þetta sást ágætlega í nýlegum skrifum fyrrverandi fjármálaráðherra í Morgunblaðinu en þar kaus hann að gera hagnað sjávarútvegsins að sérstöku umfjöllunarefni. Hann taldi sig finna réttu tölurnar með því að leggja nógu mörg ár saman í eignabreytingum. Þannig virðist hann hafa tekið eigið fé fyrirtækja hrunárið 2008, sem var þá ríflega hundrað milljarðar í mínus, og reiknað frá því. Eigið fé hækkað hratt eftir að íslenskt efnahagskerfi komst út úr efnahagsþrengingunum. Þannig virðist hann gera sér að leik að rugla saman rekstrarhagnaði og breytingum á eignfærslu. Talan verður hærri fyrir vikið en bíður auðvitað upp á misskilning, ég ætla þó að stilla mig um að nota orðið falsfrétt.utgerdvest

Búmenn til sveita sögðu gjarnan; aumur er öfundlaus maður en hvernig getur hagnaður í sjávarútvegi orðið hvati að neikvæðri umræðu um rekstur hans? Jú, undir býr sú sannfæring margra að hagnaður sjávarútvegsins sé vísbending um að það sé vitlaust gefið, kvótakerfið búi til rangar forsendur og hygli sjávarútvegi umfram aðrar greinar. Aðalástæðan sé sú að sjávarútvegurinn fái að nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar án þess að borga fyrir þær. Það er reyndar ekki rétt, sjávarútvegurinn borgar auðlindagjald sem aðrir, sem nýta auðlindir, gera ekki.

Geta allir rekið sjávarútveginn með hagnaði?

Er rekstur sjávarútvegsins svo auðveldur að hver sem er getur náð árangri, svo framarlega sem hann fái veiðirétt? Sagan segir okkur að svo sé ekki. Hér hefur oftar en ekki verið rifjuð upp saga útgerðar, fyrir og eftir kvótakerfið. Augljóslega hafa orðið gríðarlegar breytinga sem að stærstum hluta hafa byggst á hagræðingu, aukinni skilvirkni og bættum rekstri. Hefði þetta gerst án kvótakerfisins? Nei, líklega ekki. Það varð að vernda auðlindina um leið og bæta varð rekstur sjávarútvegsins. Hann varð að takast á við samdrátt í afla um leið og hann varð að hagræða. Frá og með ríkisstjórninni sem tók við 1991 voru sértækar aðgerðir með gengisfellingum og millifærslusjóðum aflagðar og reyndar gefin út sérstök yfirlýsing þar um. Sjávarútvegurinn varð að standa á eigin fótum. Fyrir vikið veiða færri skip og færri sjómenn mun verðmætari afla en áður.

Markaðir koma og fara

Hráefnið hefur tekið stakkaskiptum en mestu skiptir að það þjónar þörfum markaðarins hverju sinni, nánast út um allan heim. Við erum minnt á það þessa daganna, þegar óvissa er um flug til Bandaríkjanna. Nú í janúar var fluttur út ferskur fiskur fyrir 1,6 milljarð króna á markað í Bandaríkjunum. Árið 2018 var þessi útflutningur samtals um 17,5 milljarðar króna. Þarna er mikið í húfi og rekstraraðilar í sjávarútvegi verða nú að hamast við að finna lausn á þessu. Vonandi að takist að tryggja fraktflug þó farþegaflug hafi verið bannað um sinn.

Á sama hátt varð sjávarútvegurinn að takast á við viðskiptabann Rússa. Sjávarafurðir voru yfir 90% af verðmæti þess varnings sem flutt var til Rússlands og þar voru ábatasamir markaðir með vörutegundir sem ekki seljast annars staðar á svo háu verði. Bannið hefur haft gríðarleg áhrif á sjávarútveginn sem hefur orðið að leita sér markaða annars staðar.

Þá er ótalið það tjón sem loðnubrestur hefur valdið sjávarútveginum en annað árið í röð eru horfur á að engin loðna veiðist. Þar eru töpuð útflutningsverðmæti upp á tæpa 50 milljarða króna. Ræðir nokkur um að bæta sjávarútveginum það tjón? Hvað hefði gerst ef aflaheimildir hefðu verið boðnar út? Þá skuldaði ríkið væntanlega þeim sem hefðu keypt af þeim aflaheimildir á loðnu. Í stað þess sitja sjávarútvegsfyrirtækin sjálf uppi með tjónið.

Þannig má segja að sjávarútveginum sjálfum hafi tekist að þróast og aðlaga sig alþjóðlegum kröfum, sækja stöðugt inn á nýja markaði og varðveita hagkerfið fyrir frekari skakkaföllum.

Annað kerfi betra?

Hér hefur uppboðskerfið verið nefnt. Hefði verið betra að hafa annað kerfi í sjávarútvegi? Varla. Það er alveg sama hvaða kerfi ríkir það, til að kerfið standi undir nafni þá verður það að leiða til hagræðingar og skilvirkni. Afrakstur þess er betri og bætt afkoma sjávarútvegsins. Sveinn Agnarsson, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, orðaði þetta með ágætum á opnum fundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi í Sjóminjasafninu í vikunni.

„Vandinn sem við erum að fást við er þessi. Alveg sama hvaða stefna sé mótuð í stjórn fiskveiða […] þá munu útgerðir í landinu og sjávarútvegsfyrirtæki aðlaga sig að þeirri stefnu með tíð og tíma. Og með tíð og tíma mun það gerast að afkoma í greininni batnar. Þegar afkoma þeirra batnar, þá fara að heyrast raddir um að það gangi of vel og að þurfi að breyta um stefnu. Þetta er hættulegt. Vegna þess að allar atvinnugreinar, og sjávarútvergur er engin undantekning á því, byggja á langtímahugsun. Það eru fjárfestingar sem eiga sér stað yfir langan tíma og fyrirtækin þurfa að búa við sem minnsta óvissu. Það er nóg óvissa í lífríki hafsins fyrir sjávarútvegsfyrirtækin að glíma við. Það er hins vegar óþarfi að búa til of mikla óvissu um stjórn fiskveiða,“ sagði Sveinn.

Þetta er kjarni málsins. Í stað þess að bölva því kerfi sem byggt hefur upp og árangri af því ættum við að fagna að svona vel tókst til. Velgengni sjávarútvegsins er velgengni okkar allra.