c

Pistlar:

14. mars 2020 kl. 15:32

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Að skapa óvissu um sjávarútveginn

Staða og rekstur íslensks sjávarútvegs er mikilvægt umfjöllunarefni og eins og lesendur þessara pistla hafa án efa tekið eftir þá hefur pistlaskrifara verið málefnið hugleikið undanfarið. Að hluta til kemur það vegna áhugaverðrar fundaraðar sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa staðið fyrir undanfarna miðvikudaga úti á Granda. Þar hafa frummælendur úr öllum áttum komið að borðinu og eðlilegt að nýta tækifærið og fjalla um sjávarútveginn á sem heildstæðastan hátt. Reyndar er það svo að fjölmiðlar hafa ekki sýnt fundunum mikla eftirtekt og skiptir engu þó þarna hafi verið húsfyllir og umræðuefnið varði alla Íslendinga. Það er helst að Morgunblaðið hafi gert því skil og þá sérstaklega í gegnum sérblað 200 mílur.utgGrismey

Á síðasta fundi var merkileg umræða um ágæti þess að gera umfangsmiklar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Það kom reyndar fram á fundinum að slík umræða getur beinlínis verið hættuleg fyrir greinina. Þetta kom með skýrum hætti fram í erindi Sveins Agnarssonar, prófessors við viðskiptafræðideild Há­skóla Íslands, en vitnað var til orða Sveins hér í síðasta pistli. Ástæða er til að hnykkja en og aftur á orðum hans, svo mikilvæg eru þau:

„Vandinn sem við erum að fást við er þessi. Alveg sama hvaða stefna sé mótuð í stjórn fiskveiða […] þá munu útgerðir í landinu og sjávarútvegsfyrirtæki aðlaga sig að þeirri stefnu með tíð og tíma. Og með tíð og tíma mun það gerast að afkoma í greininni batnar. Þegar afkoma þeirra batnar, þá fara að heyrast raddir um að það gangi of vel og að þurfi að breyta um stefnu. Þetta er hættulegt. Vegna þess að allar atvinnugreinar, og sjávarútvegur er engin undantekning á því, byggja á langtímahugsun. Það eru fjárfestingar sem eiga sér stað yfir langan tíma og fyrirtækin þurfa að búa við sem minnsta óvissu. Það er nóg óvissa í lífríki hafsins fyrir sjávarútvegsfyrirtækin að glíma við. Það er hins vegar óþarfi að búa til of mikla óvissu um stjórn fiskveiða,“ sagði Sveinn og er hér stuðst viðsamantekt sem birtist á mbl.is af fundinum.

Bætt afkoma öllum til góðs

Sveinn sagði einnig að breytingar sem stjórnvöld kunna að gera á fiskveiðistjórnunarkerfinu geti haft áhrif á það hvort forsendur langtímafjárfestinga fyrirtækjanna haldist. Ef breytingar eru gerðar á kerfinu geti fyrirtækin horfið frá fyrri áformum sem geti dregið úr arðsemi til langs tíma. Telur Sveinn þess vegna mikilvægt að viðhöfð sé langtímastefnumótun fyrir greinina og mikilvægt sé að stjórnvöld reyni að standa við þá stefnu. „Og leyfum greininni að skila ávinningi, því það er öllum til góðs til lengra tíma litið,“ sagði Sveinn. Það kemur einmitt inn á það sem hér var rætt í síðasta pistli, hina stórundarlegu umræðu um það sem pistlaskrifari vill kalla „velgengnisvanda“ sjávarútvegsins. Hvernig getur það verið vandamál að undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar gangi vel? Þeir sem tala þannig verða að skýra orð sín betur.

Nýsköpun og samþjöppun

Fyrir stuttu mátti sjá athyglisverða frétt á heimasíðu Síldarvinnslunnar. Þar kom fram að Síldarvinnslan hefur á undanförnum árum tekið mikinn þátt í uppbyggingu þekkingar á sviði veiða og vinnslu uppsjávarfisks í samstarfi við Matís, Háskóla Íslands og GRÓ-sjávarútvegsskóla UNESCO. Fyrirtækið hefur verið í samstarfi við hvorki fleiri né færri en sex doktorsnema sem allir hafa verið að vinna verkefni sem tengjast bættri nýtingu og þróun vinnsluferla og er verkefnunum ætlað að stuðla að aukinni verðmætasköpun. Hvaða fyrirtæki í landinu geta státað af slíkum stuðningi við menntun og þekkingarleit?

Í ræðu sinni kom Sveinn Agnarsson einmitt inn á samspil sjávarútvegs og nýsköpunar. Hann sagði mikilvægt að varðveitt sé samkeppni milli sjávarútvegsfyrirtækja og tæknifyrirtækja þar sem hún stuðlar að aukinni nýsköpun. Hann tók þó fram að ákveðnum sviðum sé stærðarhagkvæmni mikilvægur þáttur og nefndi hann sérstaklega á sviði uppsjávarveiða.

Á fundinum var varpað upp spurningu um tilhögun fiskveiðistjórnunar og vék Sveinn meðal annars að svokallaðri uppboðsleið. Telur hann ýmsa ókosti fylgja því skipulagi og benti á að fyrirtæki sem hafi keypt veiðiheimildir í loðnu á uppboði væri hugsanlega ekki fært um að bjóða í þær aftur ef það yrði fyrir loðnubresti. Það eru athyglisverð rök.

Mikilvægi greinarinnar

„Sjávarútvegurinn vegur mjög þungt í þjóðhagslegu samhengi og er mjög mikilvægur,“ sagði Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, í ræðu sinni á fundinum. Vísaði hún til þess að sjávarafurðir skila rétt innan við 40% af tekjum af vöruútflutningi landsins og sagði hún þetta sýna þjóðhagslegt mikilvægi greinarinnar.

Þá sagði hún mikla fjárfestingu sjávarútvegsfyrirtækja í tækni og hugviti hafa aukið verðmætasköpun og fjölgað störfum í tengdum greinum svo um munar. „Það sem líka skiptir höfuðmáli er að okkur hefur tekist að bæta nýtingu afurða okkar,“ sagði Ásdís og benti á að fjárfestingarnar skila auknum tekjum, nokkuð sem verður seint brýnt um of.