c

Pistlar:

27. apríl 2020 kl. 15:31

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sjúkdómur í rénun en hagkerfi í molum

Geta áhrif og afleiðingar kórónuveirunnar sagt okkur eitthvað til um hagfræðileg álitaefni? Það getur verið erfitt að sjá en það kemur ekki í veg fyrir að margir telja faraldurinn renna stoðum undir það sem þeir alltaf vissu, að þessi eða hin kenningin væri rétt eða röng. Að því leyti má segja að faraldurinn styrki menn í trúnni þó rökin sé að mestu þau sömu og áður en hann kom til sögunnar. En faraldurinn er sannarlega að breyta sögunni. Í bandaríska blaðinu Wall Street Journal í dag er sagt frá því að aldrei hafi fleiri þjóðir leitað til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans um aðstoð á sama tíma. Þó sjúkdómur sé í rénun eru mörg hagkerfi í molum. Það er hinn nýi veruleiki.

Eðlilegt er að menn velti fyrir sér hlutverki ríkisins á tímum sem þessum. Við fyrstu sýn virðist eina ráðið fyrir hagkerfið til að verjast framleiðslu- og eftirspurnarfalli að setja seðlaprentun í gang og milda þannig höggið. Hve þungt það verður er vandasamt að segja en hver ný sviðsmynd er dekkri en sú síðasta. Þannig virðast menn leggja sitt traust á að stuðningur hins opinbera geti bjargað því sem bjargað verður í hagkerfinu og þannig stuðlað að því að við komum fljótar út úr vandanum. Ferðaþjónustan sækir fast aðstoð og segir að án aðstoðar verði niðursveiflan 3 til 5 ár, með aðstoð geti hún orðið 2 til 3 ár. Það munar miklu fyrir landsframleiðsluna að niðursveiflan verði í sem stystan tíma en ómögulegt er að segja hvenær ferðaþjónustan nær sér á skrið aftur. Færa má rök fyrir því að fólk upplifi ekki næga öryggistilfinningu til að ferðast milli landa fyrr en bóluefni fæst. Ómögulegt er að segja hvenær það verður þó um 80 aðilar í heiminum vinni nótt sem dag við þróun þess. Samkvæmt fréttum BBC eru tvö lyf nú þegar komin í klínískar prófanir á sjúklingum en ástæða er til að vara við bjartsýni. Það sýnir sig að veiran er erfið viðureignar þó að það sé áhugavert að sjá þá getu sem vísindasamfélagið og lyfjaiðnaðurinn hefur nú yfir að búa. Hugsanlega eru þetta vísbendingar um að í framtíðinni verði unnt að framleiða lyf með skjótari og árangursríkari hætti og bregðast þannig hraðar við faröldrum framtíðarinnar.veira

Þekking á sjúkdómnum og meðhöndlun hans eykst

En þó ekki sé til bólusetning eða lækning þá blasir við að þekking á sjúkdómnum eykst hratt. Mikil breyting hefur orðið á meðhöndlun sjúklinga frá því hann kom upp, færri fara í gjörgæslumeðferð og færri í öndunarvélar. Því er haldið fram að ef Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, hefði veikst einni til tveimur vikum fyrr hefði hann endað í öndunarvél en þá dregur verulega úr lífslíkum. Hann fékk súrefnisgjöf sem hefur nýst við að bægja sjúklingum frá öndunarvélum en því miður hafa þeir sem þangað fara ílengst lengur en gert var ráð fyrir sem hefur síðan verri afleiðingar síðar. Um leið hefur heilbrigðisstarfsfólk lært betur meðhöndlun og lyfjagjöf og þannig tekist að milda mjög sjúkrahúsvistina.

Augljóst er að hér hefur tekist mjög vel til með rakningarþjónustu og að fylgjast með sjúklingum í sóttkví. Öll sú umgjörð er traustvekjandi en framhaldið hlýtur að byggja á því að þessi starfsemi haldi áfram þar til veiran er komin undir stjórn. Hluti þessarar þjónustu getur nýst til frambúðar og hugsanlega sparað kostnað við hjúkrunarheimili og aðra leguþjónustu eins og forstjóri Landspítalans hefur vakið athygli á. Ef hægt er að koma því svo við að fólk er lengur heima hjá sér má spara mikla fjármuni en bygging og rekstur hjúkrunarheimila er gríðarlega kostnaðarsamur. En á tímum sem þessum er einmitt mikilvægt að vernda og tryggja öryggi aldraðra. Frakkland er eitt þeirra ríkja sem mistókst það en 9000 dauðsföll vegna veirunnar urðu á hjúkrunarheimilum í Frakklandi.

Lækningin verri en sjúkdómurinn

Í danska blaðinu Politiken í dag eru vangaveltur um hvort viðbrögðin við faraldrinum séu allt of hörð. Þrátt fyrir allt sé ekki tilefni til að loka hagkerfi heimsins þar sem það muni að endingu hafa enn alvarlegi afleiðingar en sjúkdómurinn. Þetta er vandasöm umræða, sannarlega er kórónuveiran skæð og veikindi sem henni fylgja erfið. Það var í raun ekki verjandi að leggja það á heilbrigðiskerfi landanna að hleypa henni í gegnum opin samfélög. Sjúkrahúsin hefðu ekki haft undan og ástandið hefði orð óbærilegt. Það var rétt að fara þá leið sem farin var hér en nú þarf að finna réttu leiðina við að opna þjóðfélagið aftur. Það er það sem öll þjóðfélög keppast við núna enda ríður á að koma hjólum atvinnulífsins af stað. Atvinnuleysi hér á landi er að verða meira en við höfum kynnst áður.hagvöxt

Hvert verður tjónið? Hér hefur undanfarið verið farið yfir þá spádóma sem komið hafa. Danir gera ráð fyrir falli landsframleiðslu upp á 3 til 6%. Líklega munu þeir fara betur út úr þessu en við þar sem hagkerfi þeirra er fjölbreyttara og stærra. Viðskiptaráð birti í dag sviðsmynd sem þýðir 13% samdrátt landsframleiðslu sem væri mesti samdrátturinn í 100 ár og nálægt því að vera mesti samdrátturinn frá upphafi mælinga í 150 ár. Ráðið telur að verði batinn í takt við meðalhagvöxt 1997-2019 mun það taka 8 ár að ná fyrri verðmætasköpun á mann og uppsafnað tap landsframleiðslu frá 2019 nemur rekstri Landspítalans í 16 ár og framlagi ríkisins til Landspítalans í 18 ár. Þetta er því harður skellur fyrir íslenskan efnahag og krefst endurskoðunar á mörgum þáttum íslensks samfélags.